Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:12:01 (496)

2000-10-12 16:12:01# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. tók sér í munn það orð sem notað er yfir réttlæti og ég spyr hv. þm.: Ef við erum með tvenn hjón, annars vegar tvo öryrkja þar sem makinn er með 70 þús. kr., og hins vegar hjón þar sem makinn er með 400 þús. kr., tannlæknir eða skipstjóri eða eitthvað slíkt, er það réttlæti að báðir öryrkjarnir fái sömu bætur án tillits til tekna og þeirra aðstæðna sem þeir lifa í, borgað úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna? Er það réttlæti? Ég spyr.

Varðandi það að skattkerfið komi þessu máli ekkert við, þá bendi ég á að íslenska skattkerfið er fullt af bótum. Það eru vaxtabætur, það eru barnabætur, það er 66. gr. sem hv. þm. þekkir örugglega, um heimild til skattstjóra til að fella niður skatta þeirra sem eiga bágt.

Skattkerfið er því ekkert óháð bótakerfinu. Skattkerfið grípur inn í bótakerfið, enda gengur umræðan út á það að samræma bóta- og skattkerfið. Ég spyr því hv. þm.: Er það réttlæti sem ég nefndi hérna áðan? Og ég spyr hv. þm. enn fremur um 66. gr. í skattalögunum.