Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 16:56:32 (508)

2000-10-12 16:56:32# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., HólmS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[16:56]

Hólmfríður Sveinsdóttir:

Herra forseti. Með þessu frv. er hreyft máli sem mikið hefur verið í umræðunni í samfélaginu og margir réttilega lýst sem svörtum bletti á íslensku velferðarkerfi, þ.e. tekjutenging tekjutryggingar lífeyrisþega við tekjur maka. Þessi regla hefur það í för með sér að lífeyrisþegar sem stofna fjölskyldu eru í raun sviptir mannlegri reisn með því að maka þeirra er gert að sjá þeim farborða eða með öðrum orðum, lífeyrisþegi sem ekki á kost á að vinna fyrir tekjum er sviptur þeirri aðstoð sem hann hefur frá velferðarkerfinu eða a.m.k. að hluta.

Það er deilt um hvort sú fullyrðing forsrh. sé rétt að þetta sé víða tíðkað. Fróðlegt væri að vita til hvaða samanburðar forsrh. er að vitna og hvort þar er um sambærilegar fjárhæðir að ræða. Gott væri líka að fá frekari gögn til að sjá þann samanburð.

Herra forseti. Ríkið stærir sig af því að vera meðal ríkustu þjóða heims, ríkisstjórnin stærir sig af mesta góðæri sögunnar, blússandi uppgangi og milljarða kr. tekjuafgangi á ríkissjóði, en það er smánarblettur á þeirri ríkisstjórn að vera ekki með á forgangslista að afnema þessa tekjulind sem er lægri en 360 millj. kr. eftir síðustu aðgerð heilbrrh.