Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 17:12:15 (512)

2000-10-12 17:12:15# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[17:12]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég á mjög auðvelt með að svara þessu. Mér finnst mikill tekjumunur í þjóðfélaginu vera ranglátur og mér finnst tekjumunur vera allt of mikill í þjóðfélaginu, bæði í launakerfinu og þegar litið er til tekna sem menn afla með öðrum hætti, fjármagnstekjur eða á annan hátt. Mér finnst tekjumisréttið í þjóðfélaginu óbærilegt. (PHB: Tekjur sjómanna?) Mér finnst tekjumunurinn í þjóðfélaginu vera óbærilega mikill og hann er að aukast í tíð þessarar ríkisstjórnar og á margvíslegan hátt er hún að stuðla að enn meira tekjumisrétti í þjóðfélaginu.

Ég vil svara þessari spurningu að öðru leyti á þann veg að mér finnst ranglátt að tekjur öryrkja úr almannatryggingakerfinu séu skertar vegna tekna maka. Mér finnst það ranglátt. Mér finnst að við eigum að afnema það og þess vegna styð ég frv.

Varðandi tilvitnun mína í hv. þm. fyrr í dag þá biðst ég afsökunar á því ef ég hef misheyrt eitthvað. Ég þóttist heyra þetta hér úr hliðarsal. Það er hins vegar misskilningur hjá hv. þm. að allir lífeyrissjóðir hækki lífeyri í samræmi við neysluverðsvísitölu. Mismunandi reglur gilda um þetta efni. En svar mitt er þetta: Tekjumisréttið í þjóðfélaginu er óbærilegt og hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal ekki haft miklar áhyggjur, að því er ég hef heyrt, af því misrétti. En hitt finnst mér alveg afdráttarlaust, að það eigi að afnema tekjutengingu lífeyristekna öryrkja við maka hans.