Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 17:14:09 (513)

2000-10-12 17:14:09# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[17:14]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Nú varð ég hissa. Hv. þm. er á móti auknum tekjumun en hann ætlar að auka hann.

Ef öryrki býr með maka sem hefur 400 þús. kr. á mánuði þá hafa þau sameiginlega 417 þús. til að lifa af bæði tvö. Hv. þm. ætlar að auka þetta upp í 470 þannig að ekki verði tekið tillit til tekna makans sem hann segir að séu of háar. Hann ætlar sem sagt að auka tekjur þessarar fjölskyldu enn meira. Hann ætlar að auka tekjumuninn með því að hætta að taka tillit til tekna maka.

Eins og ég gat um áðan er þessi fyrirspurn ekkert tengd því hvort ég sé á móti þessu eða með. Ég er bara að benda á þetta. En hv. þm. vill sem sagt auka þennan mun. Þegar ég talaði um hvort taka ætti tillit til fjölskyldunnar þá vil ég að tekið sé tillit til hennar alls staðar, ekki bara í þessu máli heldur líka varðandi einstæða foreldra, mismunandi barnalífeyri og líka varðandi sérstaka heimilisuppbót o.s.frv. Mjög víða í okkar kerfi er tekið tillit til fjölskyldunnar og það sem ég hef við þetta að athuga er að frv. tekur bara á einum pínulitum þætti og það eykur misræmið eða rökleysuna í kerfinu.