Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 17:27:20 (516)

2000-10-12 17:27:20# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég furða mig á málflutningi talsmanns Sjálfstfl. í þessum málaflokki. Hv. þm. Pétri H. Blöndal hefur verið stillt hér upp sem sérstökum málsvara Sjálfstfl. í almannatryggingum (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Það er ekki rétt, því hefur verið afneitað þegar í stað og ég skil það mjög vel. Hann telur ríkisstjórninni það nánast til tekna að barnabætur skuli hafa rýrnað og rekur það til þess að launin hafi hækkað svo mikið í landinu á liðnum árum. Það er alveg rétt hjá honum að barnabætur hafa lækkað að verðgildi um 2 milljarða á einum áratug. Þetta er alveg rétt en það er ekki bara vegna þess að tekjuviðmiðun hafi ekki fylgt launaþróun, hún hefur ekki fylgt almennri verðlagsþróun og hafa rýrnað af þeim sökum.

Hv. þm. segir að svo mikið hafi verið gert fyrir atvinnulífið. Það er alveg rétt. Fyrir sum atvinnufyrirtæki hefur heilmikið verið gert. Í gær vorum við hér með til umræðu ráðstafanir sem eru til þess fallnar að veita svokölluðum alþjóðaviðskiptafélögum sérstakar skattaívilnanir. Til þeirra kemur til með að verða varið alls um 45 millj. kr. á næstu árum, í sérstakt samstarfsverkefni við Verslunarráð Íslands til að vinna þessari hugsun brautargengi jafnvel þótt fram hafi komið í máli hæstv. viðskrh. að þetta kunni að stríða gegn vinnureglum sem OECD er að koma sér upp í þessu efni.

En mig langaði til að beina til hv. þm. Péturs H. Blöndals þessari spurningu: Finnst honum rétt, þegar skoðuð eru kjör aldraðra og lífeyrisþega, að horfa einvörðungu á bæturnar, það sem fólk fær frá tryggingakerfinu? Þarf ekki að horfa til annarra þátta einnig, t.d. lyfjakostnaðar sem hefur verið hækkaður verulega á undangengum mánuðum?