Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 17:33:32 (519)

2000-10-12 17:33:32# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er hér sem þingmaður á hv. Alþingi en ekki sem talsmaður eða málsvari Sjálfstfl. Reyndar styð ég þann flokk og er í þeim flokki og styð ríkisstjórnina, en það er ekki þar með sagt að ég sé málsvari þeirra. (Gripið fram í.) Það er vegna þess að ég hef sérstakan áhuga á málinu.

En ég tek undir með hv. þm. Eignarskattar og fasteignagjöld, sérstaklega hérna í Reykjavík, hafa lestað öryrkja og aldraða alveg sérstaklega mikið. Og ég hef margoft lagt til að eignarskattar verði mildaðir og lækkaðir. Ég hef lagt fram frv. á hinu háu Alþingi í því skyni, ég hef því verið að skoða þessi mál mjög grannt.

Ég sé nefnilega að fólk sem t.d. missir maka sinn og býr í stóru einbýlishúsi fellur í eignarskatta oft og tíðum. Og jafnvel bara lítil íbúð er orðin eignarskattskyld ef hún er skuldlaus. Það fólk á því erfitt með að greiða háa eignarskatta af eignum þar sem það hefur lágar tekjur. Ég vil gjarnan skoða slík mál og einstök mál, t.d. lyfjakostnaðinn. Það er reyndar á því dálítið vandamál því að aukin þátttaka í lyfjakostnaði eykur notkunina. Notkunin hefur því miður vaxið alveg gífurlega. Kannski er þörf á því.

En þetta eru allt atriði sem þarf að skoða.