Landsvegir á hálendi Íslands

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 17:35:27 (520)

2000-10-12 17:35:27# 126. lþ. 9.10 fundur 52. mál: #A landsvegir á hálendi Íslands# þál., Flm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um framtíðarskipulag og uppbyggingu landsvega á hálendi Íslands á þskj. 52, 52. mál. Meðflutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þingmenn Árni Johnsen, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðjón Guðmundsson, Ásta Möller, Hjálmar Jónsson og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Tillagan hljóðar þannig:

,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að skipa nefnd sem geri tillögur um framtíðarskipulag og uppbyggingu landsvega á hálendi Íslands.

Nefndin skal skipuð fimm mönnum, einum tilnefndum af ráðherra, tveimur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einum af Náttúruvernd ríkisins og einum af Vegagerðinni.``

Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 125. löggjafarþingi en var ekki útrædd. Tillagan er nú endurflutt nánast óbreytt.

Herra forseti. Ísland hefur haft þá ímynd að hér sé ægifögur stórbrotin náttúra, að mestu óspillt öræfi og þeirri ímynd viljum við halda. En ef svo á að verða verðum við að huga að umgengni okkar við landið. Umferð á hálendi Íslands fer sívaxandi.

Samkvæmt tillögunni skal skipuð nefnd sem semji drög að framtíðarskipulagi og uppbyggingu landsvega á hálendinu þannig að komast megi um það án mikilla svaðilfara, en með nokkrum takmörkunum þó.

Aðalleiðir, þ.e. Kjölur, Sprengisandur, Kaldidalur/\-Uxa\-hrygg\-ir og Fjallabaksleið nyrðri, þurfa að vera færar dugmiklum fólksbílum, venjulegum jeppum og fólksflutningabílum yfir helsta ferðamannatímann, þ.e. frá júní til september.

Vinsælar leiðir á borð við leiðirnar að Öskju, Gæsavötnum, Herðubreið og Snæfelli, Fjallabaksleið syðri, hringleið um Heklu, Emstruleið, inn í Þórsmörk, Dómadalsleið í Landmannalaugar, um Haukadalsheiði, Eyfirðingabraut, yfir Öxi, að Lakagígum og fleiri vinsælar ferðaleiðir á hálendinu þurfa að vera færar öllum venjulegum jeppum og fólksflutningabílum yfir sumartímann.

Til að þetta geti orðið til frambúðar þarf að veita fé til uppbyggingar og viðhalds þessara vega á hverju ári. Í flokkun veganna þarf að koma fram tilgangur þeirra, þ.e. hverjir fara um þá og hvert. Setja þarf viðmiðunarreglur um hvar á að brúa og hvar ekki. Rétt er að fjármagnið skiptist eftir þessari flokkun og ástandi og mikilvægi hvers vegar eins og reynt er að gera í byggð.

Með góðum og greiðfærum vegum á hálendinu er hægt að draga úr utanvegaakstri og stuðla þar með að verndun gróðurs og ósnortinna svæða, auka öryggi ferðamanna á ferðum um hálendið og tryggja að ekki verði ,,óvart`` til nýjar slóðir hér og þar.

Herra forseti. Erlendum ferðamönnum til Íslands heldur áfram að fjölga. Gert er ráð fyrir að ferðamenn verði yfir 300 þúsund á þessu ári sem er um 17% aukning frá síðasta ári, en árið 1999 voru erlendir ferðamenn 262 þúsund talsins. Erlendum ferðamönnum sem koma utan háannatíma hefur fjölgað verulega á undanförnum áratug og gera má ráð fyrir að svo verði áfram. Íslendingar ferðast sjálfir mun meira um landið og þá sérstaklega um hálendið, mun meira en þeir hafa gert, enda er jeppaeign landsmanna mikil. Akstur utan vega hefur því miður aukist mikið á hálendinu og virðast Íslendingar eiga þar stóran hlut að máli.

Sem betur fer fara flestir ökumenn eftir settum lögum og reglum. Þeir bera virðingu fyrir landinu sínu og aka eftir merktum vegarslóðum og ferðast um land sitt með virðingu fyrir náttúrunni að leiðarljósi. En það þarf ekki nema einn gikk í hverja veiðistöð sem kemur óorði á alla hina. Og því miður er til stór hópur fólks sem virðir hvorki boð né bönn og sýnir landinu ótrúlega lítilsvirðingu með þessum hætti. Sumir fara eins og ribbaldar um óbyggðir og öræfi til þess að sýna hversu megnug tæki þeir eru með undir höndum. Þannig hátterni skilur eftir sig sár sem er lýti í landinu, auk þess sem þau geta komið af stað jarðvegsrofi. Akstur utan vega er óleyfilegur, enda geta hjólför eftir bíla á viðkvæmum stöðum á hálendinu sést áratugum saman.

Herra forseti. Í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, er að finna ákvæði um bann við akstri utan vega og viðurlög við brotum gegn lögunum. Í 17. gr. náttúruverndarlaga segir, með leyfi forseta:

,,Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin.``

Herra forseti. Þó svo að aka megi á freðinni jörð og á jöklum getur akstur utan vega engu að síður valdið umtalsverðum náttúruspjöllum. Viðkvæmur gróður lætur þá á sjá og er slíkur akstur ekki til eftirbreytni. Með efldu vegakerfi á hálendinu er auðveldara að stýra umgengni ferðamanna og náttúruunnenda. Alltaf er ákveðin hætta á að þeir sem þekkja illa til á hverjum stað skaði umhverfið frekar með því að telja óljósa vegaslóða vera rétta ökuleið. Um leið og þessi verndunarsjónarmið eru höfð að leiðarljósi er mikilvægt að hafa í huga að tilgangurinn með því að gera hálendið þolanlega umferðarfært er einnig sá að gefa almenningi kost á því að njóta hinnar stórkostlegu náttúru, nokkuð sem ekki hefur verið á færi venjulegra farartækja.

Nauðsynlegt er að taka mið af skipulagi hálendis Íslands þegar vegakerfi um hálendið verður skipulagt. Það ætti að einhverju leyti að taka mið af hugmyndafræðinni um að ferðamenn fari um hálendið að deginum til og njóti náttúrunnar en dvelji eins og við verður komið við jaðar þess yfir nætur eða á skipulögðum svæðum.

Herra forseti. Að lokum legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. samgn. og síðari umræðu.