Orðaskipti þingmanna

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:05:01 (526)

2000-10-16 15:05:01# 126. lþ. 10.91 fundur 52#B orðaskipti þingmanna# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér þykir ákaflega slæmt að hv. þm. Pétur Blöndal átti erfitt með að ljúka máli sínu við mig á fimmtudaginn. Staðreyndin var sú að ég þurfti að fara á fund annars staðar hjá framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar og áður en ég hvarf úr fundarsal lét ég hæstv. forseta vita af hverju ég varð að fara. Hins vegar gæti hv. þm. Pétur H. Blöndal, seinna í dag kannski rætt þessi mál. Hann hefur möguleika til andsvara ef til þess kemur. Ef ekki þá verður hv. þm. að ræða þessi mál við mig seinna.

Mér þykir ákaflega miður ef hv. þm. telur að ég hafi lagt til hans persónulega vegna þess að það var ekki ætlunin eins og ég tók margsinnis fram. Ég taldi hins vegar að þær skoðanir sem hv. þm. stæði fyrir væru ákaflega fjarri mínum og skoðunum flokks míns og ég reyndi að færa málefnaleg rök fyrir þeirri skoðun minni, m.a. til þess að hv. þm. ætti kost á því að ræða það við mig í andsvari. Hv. þm. kom tvisvar upp í andsvar við mig og ég svaraði hv. þm. a.m.k. einu sinni ef ekki tvisvar en ég varð því miður af þessum sökum að hverfa úr fundarsal.

Herra forseti. Nú er það þannig að sá þingmaður sem hér stendur í pontu er kannski ekki einn af þeim sem er hér alla daga en ég held að ekki sé hægt að ásaka mig fyrir að vera fjarri þessum þingsal ákaflega oft. Ég hef á stundum verið nefndur einn af þeim sem heldur nánast til í þessum sölum þannig að ekki er hægt að ásaka mig fyrir að sitja ekki undir umræðum og taka þátt í umræðum.

Ég ítreka, herra forseti, að hv. þm. átti kost á því að koma athugasemdum sínum við mig á framfæri í andsvari og hann gerði það. Að öðru leyti þykir mér þetta miður en þannig voru aðstæðurnar. Ég skal með glöðu geði eiga einhvern tíma síðar orðastað við hv. þm. um þessi mál og önnur.