Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:12:25 (528)

2000-10-16 15:12:25# 126. lþ. 10.93 fundur 54#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í upphafi er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvaða ákvörðun var tekin í ríkisstjórn sl. föstudag. Ríkisstjórnin beindi þeim tilmælum til bankaráða Landsbanka og Búnaðarbanka að hafnar yrðu viðræður um samruna þeirra. Það var því ekki tekin ákvörðun um samruna þessara banka. Kemur þar tvennt til.

Í fyrsta lagi er það ekki ríkisstjórnarinnar að taka ákvörðun um slíkan samruna heldur bankaráðanna.

Í öðru lagi verður að fá úr því skorið að samruninn samrýmist ákvæðum samkeppnislaga. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar rætt er um málið.

Ég er sannfærð um að samruni Landsbanka og Búnaðarbanka yrði hagstæður fyrir íslenskan fjármagnsmarkað. Við Íslendingar erum ekki eyland á bankamarkaði. Hér eru starfandi of margir bankar. Við verðum að geta boðið samkeppnishæf kjör því að öðrum kosti mun fjármálaþjónusta í framtíðinni fyrst og fremst verða boðin af bönkum með aðsetur erlendis. Með samruna erum við að tryggja íslenska bankakerfið betur í sessi og stuðla að því að fjármálaþjónusta verði rekin af íslenskum fyrirtækjum og jafnframt tryggja störf íslenskra bankamanna.

Ég hef sett fyrirvara við samrunann. Sameinaður Landsbanki og Búnaðarbanki er mjög stór banki á íslenskan mælikvarða. Ég hef lýst því yfir að ég hafi efasemdir um að samruni þessara eininga óbreyttra samrýmist ákvæðum samkeppnislega. Úrskurður samkeppnisráðs þarf því að liggja fyrir áður en endanleg ákvörðun er tekin um samruna.

Hv. þm. spyr um þátttöku starfsmanna í samrunaferlinu. Það er rétt hjá honum að hlutafélagavæðing ríkisviðskiptabankanna gekk svo vel sem raun ber vitni vegna náins samráðs við starfsfólk. Er gott til þess að vita að formaður Samfylkingarinnar skuli vera farinn að átta sig á hvað Finnur Ingólfsson stóð sig vel í bankamálum. Ég legg mikla áherslu á það, nái samruninn fram að ganga, að starfsfólk geti fylgst með framvindu málsins. Þessi ferill er hins vegar bara rétt að byrja.

[15:15]

Ég átti til að mynda mjög góðan fund með formönnum starfsmannafélaga bankanna og formanni SÍB um þetta efni á föstudaginn, áður en málið var kynnt fjölmiðlum. Það má einnig telja líklegt að bankaráðin telji það þjóna hagsmunum sinna banka best að starfsmenn séu vel upplýstir um gang mála. Það er öllum fyrir bestu.

Í öðru lagi spyr hv. þm. hvort ríkisstjórnin hyggist birta hve mikið hagræðið af sameiningunni verður og hvernig eigi að ná því fram. Því er til að svara að það er hlutverk bankaráða en ekki ríkisstjórnar að semja greinargerð með samrunaáætlun þar sem m.a. koma fram efnahagslegar ástæður samrunans.

Í þriðja lagi spyr hv. þm. hvort ég hyggist birta útreikninga sem sýna fram á að ríkið fái meira fyrir bankana með því að selja þá saman fremur en hvorn í sínu lagi. Ég get gert þetta hér og nú. Þetta er svo einfalt. Sparnaður í rekstri bankanna leiðir til meiri hagnaðar þeirra og þar með til aukins verðmætis. Búast má við að væntingar um samruna viðskiptabankanna séu nú þegar komnar að hluta til inn í verðmat markaðarins á bönkunum og mér heyrist hv. þm. sammála mér um það. Náist ekki fram hagræðing á bankamarkaði mun væntanlegur framtíðarhagnaður bankanna minnka og verðmæti þeirra sömuleiðis.

Að síðustu, herra forseti: Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum á föstudag að þriggja manna nefnd hæfra lögfræðinga yrði mér til ráðgjafar í samrunaferlinu. Þessi nefnd á að vera mér til ráðuneytis og móta tillögur til mín um afstöðu til samrunans á hluthafafundi á grunni þeirra opinberu upplýsinga sem fyrir liggja. Það er fyrst og fremst aðkoma þessarar nefndar. Bankaráðin hins vegar munu lögum samkvæmt taka ákvörðun um samruna. Það er algjör misskilningur sem kom fram í DV um helgina að með þessu sé minnihlutaréttur fyrir borð borinn. Ríkisstjórnin er ekki að skipa bankaráðinu að hafa eingöngu hagsmuni ríkisins að leiðarljósi. Ríkisstjórnin er að fá hæfa og virta lögfræðinga til að vera mér, sem handhafa hlutabréfanna, til ráðuneytis.