Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:17:57 (529)

2000-10-16 15:17:57# 126. lþ. 10.93 fundur 54#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrst örfá orð um meinta gæsku fyrrv. hæstv. bankamálaráðherra, Finns Ingólfssonar, í garð starfsmanna. Með hliðsjón af því skal upplýst að í stjórnartíð hans var starfsmönnum fjármálastofnana sem heyra undir ráðuneyti hans þröngvað út úr stéttarfélögum og þá fyrst var haft samráð við þá að þeim hafði verði þröngvað í nauðvörn. Hæstv. viðskrh. sagði hér í þinginu í síðustu viku að ákvörðun um sameiningu bankanna hefði ekki verið tekin og þess vegna ekki tímabært að ræða málið á Alþingi. Nokkrum klukkustundum síðar kemur hins vegar í ljós að sú ákvörðun virðist hafa verið tekin þótt hæstv. ráðherra skýli sér á bak við hina formlegu ákvörðun, að hún hafi ekki verið tekin í ríkisstjórninni fyrr en á föstudag. Enn fremur kemur í ljós að ef þessi ráðstöfun samræmist ekki samkeppnislögum verði þeim lögum einfaldlega breytt. (Gripið fram í: Nei.) Yfirlýsing af þessu tagi var höfð eftir hæstv. viðskrh. í fjölmiðlum fyrir helgina. (Gripið fram í: Það er rangt.) Þá er rétt að hæstv. ráðherra beri það af sér.

Þegar rætt var um það í fyrra að sameina Íslandsbanka og Landsbanka þá töluðu mörg okkar fyrir því hér á Alþingi að þess í stað væri æskilegt að kanna sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka. Þá var um það rætt að skapa hér öflugan þjóðbanka. Nú er hins vegar ekki um það að ræða heldur á að selja þessa almannaeign úr hendi almennings. Í því ljósi verður að skoða málin. Við þurfum að fá svör frá hæstv. viðskrh. um hvað ráði för. Eru það pólitískir, þröngir eiginhagsmunir, eru það hagfræðileg rök eða það sem að sjálfsögðu á að hyggja að, langtímahagsmunir, hagsmunir notenda og starfsmanna bankans? Ég fæ ekki séð að þeir hagsmunir ráði förinni hjá ríkisstjórninni. Hér er um fjölmenna vinnustaði að ræða sem gegna mikilvægu hlutverki um land allt. Það verður að ræða þessa afdrifaríku, pólitísku ákvörðun hér á Alþingi Íslendinga með langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga.