Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:22:22 (531)

2000-10-16 15:22:22# 126. lþ. 10.93 fundur 54#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég var þar nær fyrir nokkrum árum þegar þrautkunnugir menn ræddu kosti þess að sameina fyrirtækin tvö, Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Þeir komust að þeirri niðurstöðu og höfðu þá safnað flestum kurlum til grafar, að sparnaður í rekstri bankanna sameinaðra mundi nema um 1.000 millj. kr. og sá sparnaður mundi reiknast fyrirtækjunum til virðisauka hér um bil allur þar sem þeir mundu halda viðskiptum sínum að langmestu leyti en afl þessa nýja fyrirtækis yrði miklu meira. Þá erum við komin að því sem menn hafa opin augu fyrir, að ekki veitir okkur af hér á þessu litla landi að hafa styrka fjármálastoð eins og stóran banka.

Hitt er annað mál að þegar þessi mál ber á góma þá fyllast menn jafnan grunsemdum um að ekki sé allt með heilli há hjá hæstv. núv. ríkisstjórn og draga þar lærdóm af fyrri einkavæðingu, sem menn hafa uppnefnt einkavinavæðingu, t.d. hin þekkta málamyndasala á SR-mjöli þar sem gefnir voru milljarðar í milli. En það má vera að mönnum sýnist að nú mundi sá afsláttur upp á milljarð, sem gefinn yrði með því að selja þessa banka hvorn í sínu lagi, ekki koma á réttar hendur. Kannski Hólamessumann gruni, hæstv. forsrh., að það komi í hendur óverðugra. Allt annað mál er það ef þetta stangast á við samkeppnislög. Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin hafi í huga að breyta lögum til þess að ná fram þessari sameiningu. Það má ekki verða að menn hagi sér þannig gagnvart löggjafarvaldinu.