Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:33:51 (536)

2000-10-16 15:33:51# 126. lþ. 10.93 fundur 54#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur hvergi verið nálægur þegar þessi ákvörðun var tekin því hann talaði um að í þessum málum ætti pólitískt möndl ekki upp á pallborðið, en augljóst er að hið pólitíska möndl felst í því að gefin hefur verið út tilskipun um að verð á þessum banka skuli vera hærra en ef verið væri að selja þá hvorn í sínu lagi. Það er því ljóst að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur hvergi verið nálægur.

Það hefur verið fróðlegt að hlýða á umræðuna því að mér hefur fundist að hæstv. viðskrh. sé nánast á flótta frá sinni eigin ákvörðun sem tilkynnt var með brambolti fyrir helgi. Hæstv. ráðherra segir núna að þetta sé einhvers konar kynningarstarf, verið sé að kanna hvort þetta sé möguleiki, hvort það standist lög að gera þetta með þessum hætti og nefnir jafnframt það sem ég nefndi áðan, þ.e. að fá hærra verð, en segir enn fremur að bankaráðin séu að skoða hvort efnahagslegar forsendur séu til þess að leggja þetta þannig upp að við munum fá hærra verð eða ríkissjóður með því að gera þetta á þennan hátt. Það hefur því augljóslega ekki verið skoðað ef marka má orð hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra nefnir líka hugmyndir um vaxtalækkun og væntingar um það þrátt fyrir að allar rannsóknir sýni fram á að samrunar af þessum toga hafi ekki leitt til vaxtalækkunar fyrir almenning, þannig að þetta er þveröfugt við það sem reynslan hefur kennt okkur. (Gripið fram í.)

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, ætlar pólitíkin að höndla með það hvernig starfsfólki verður sagt upp en ljóst er að það hefur aldrei sýnt sig að slíkt gangi. En kannski er kjarnaatriðið í þessu það að Samkeppnisstofnun hefur svarað þeirri spurningu viðskrh. um samruna LÍ og BÍ í ákvörðun nr. 22 frá árinu 2000 þegar fjallað var um samruna Íslandsbanka og FBA, en í þeirri ákvörðun segir, með leyfi forseta:

,,Samruninn hefur ekki bein áhrif á þá bankamarkaði þar sem samkeppni er að verulegu leyti bundin við innlánsstofnanir og áhrif frá erlendum bönkum eru takmörkuð, þ.e. á hefðbundna viðskiptabankastarfsemi í formi innlána og útlána til einstaklinga og minni fyrirtækja.``

Virðulegi forseti. Hér eru akkúrat öfugar forsendur og með því að gagnálykta frá þessu er alveg ljóst að þessi bankasamruni er ekki heimill og það verður fróðlegt að vita hvort hæstv. viðskrh. komi þá hingað með frv. til að breyta samkeppnislögum til að ná markmiði sínu um samrunann.