Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 15:53:21 (542)

2000-10-16 15:53:21# 126. lþ. 10.6 fundur 22. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta mál var kynnt í þinginu sl. vetur og flutt sem viðbótartillögur þegar breytingin var gerð á lögunum um veiðar smábátaflotans, þ.e. þau ákvæði sem flutt voru af hæstv. sjútvrh. um að kvótasetning á veiðum smábátaflotans, í krókakerfinu, færi ekki fram á þessu ári og yrði frestað um eitt ár eða til 1. sept. árið 2001. Þar af leiðandi var kerfið framlengt eins og það er þar sem eingöngu er um aflahámark í þorski að ræða en fisktegundir eins og ýsa, ufsi og steinbítur og aðrar fisktegundir eru ekki í kvótastýringu á smábátaflotanum.

Þetta frv., sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson flytur með mér, gengur út á að taka til meðferðar nokkur ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða. Í fyrsta lagi að í 6. gr. laganna komi inn ákvæði um það að hvern sóknardag megi taka út í tveimur 12 klst. veiðiferðum talið frá upphafi veiðiferðar. Veiðiferð sem væri lengri en tólf klukkustundir teldist heill sólarhringur.

Eins og ákvæðið er í dag er það þannig að hvenær sem menn hefja veiðiferð og eru lengur en ákveðinn tíma, mig minnir að það séu tveir eða þrír klukkutímar sem þeir mega hafa til að snúa til hafnar, telst dagurinn sóknardagur.

Þessi sóknardagaákvæði eru þrenns konar í lögunum um stjórn fiskveiða. Það er svokölluð 23 daga sóknarregla þar sem ekkert aflahámark er á veiðum handfærabátanna, síðan er svokölluð 32 daga regla og síðan 40 dagar ef ég man rétt en í því kerfi hafa skipin hámark í þorski. Annars vegar er um að ræða handfærakerfi en hins vegar línu- og handfærakerfi.

Þetta er lagt til vegna þess að við teljum óásættanlegt að menn séu nánast settir í þá stöðu að neyðast til að klára þessa 24 tíma ef þeir ætla að nýta sér þá fáu daga sem þeir hafa til umráða. Menn geta velt því fyrir sér hvort þessi grein leiði til mikils sóknarauka. Það þarf alls ekki að vera vegna þess að að öllu jöfnu mundu menn eyða fleiri klukkustundum í siglingar að og frá með því að sigla tvisvar á sama sólarhring að og frá landi innan tímatalningarinnar en ef það væri gert í einu lagi, fyrir utan að þetta snýr auðvitað að öryggisatriðum.

2. gr. frv. mælir fyrir um það að núverandi lög um stjórn fiskveiða með öllum bráðabirgðaákvæðum sínum falli úr gildi 1. sept. árið 2001 og að endurskoðun laganna verði lokið á yfirstandandi þingi og í síðasta lagi, miðað við þau sólarlagsákvæði sem hér eru lögð til, yrði þá að liggja fyrir nýtt heildarfrv. um stjórn fiskveiða á þinginu næsta vor og afgreiðast. Verði það ekki geri ég ráð fyrir því að við munum aftur hugleiða að flytja fyrir þinglok öðruvísi framsetningu á málinu með tilliti til þess að ekki náist að ljúka endurskoðun laganna.

Síðan er í 3. gr. vikið að þessum 12 tíma ákvæðum en þau koma fyrir, eins og ég sagði áður, í tveimur öðrum atriðum, þ.e. handfæra- og línubátar með hámarksafla í þorski og handfærabátar með hámarksafla í þorski.

Í 4. gr. er lagt til að tvö ný ákvæði til bráðabirgða bætist við lögin, og var ekki vanþörf á að bæta við tveimur bráðabirgðaákvæðum. Fyrra ákvæðið yrði bráðabirgðaákvæði XXVIII. Þar sem komið er talsvert á annan mánuð af fiskveiðiári þá leggjum við til að sú lagagrein sem ég nú fer yfir, sem yrði þá bráðabirgðaákvæði XXVIII, eða a-liður í þessu frv., taki gildi 1. sept. árið 2001. Hann mælir fyrir um það að þá skuli falla niður sérstök kvótaúthlutun í tveimur fisktegundum, steinbíti og ufsa. Fyrir þessu teljum við okkur hafa talsverð rök.

Í fyrsta lagi hefur steinbíturinn, sú virðulega fisktegund sem löngum var kölluð bjargræði Vestfirðinga, verið notaður á undanförnum árum til að framleiða aðrar tegundir í svokallaðri tegundartilfærslu í gegnum þá reglu í stjórnkerfi fiskveiða sem segir að breyta megi 5% þorskígilda í aðra tegund að verðmætishlutföllum til. Þar af leiðandi hefur tegundin að stórum hluta verið notuð í þessar breytingar. Á síðasta fiskveiðiári voru notuð 2.030 tonn í þessar breytingar. Fiskveiðiárið þar á undan voru notuð 3.000 tonn af steinbít í breytingar, þ.e. til að framleiða að mestu leyti grálúðukvóta og karfakvóta en heildarkvóti af þessari tegund hefur verið áætlaður í gegnum árin um 13.000 tonn.

[16:00]

Reyndar var steinbíturinn settur inn í kvóta við upphaf kvótakerfisins 1984 en síðan aftur tekinn út, mig minnir að það hafi verið á árinu 1985 frekar en árinu 1986. Steinbítur var því kvótalaus fram til fiskveiðiársins 1996--1997, hafði sem sagt ekkert verið innan kvótakerfisins í öll þessi ár og tegundinni vegnaði bara alveg prýðilega. Hún hafði þrifist ágætlega og afkoma hennar í sjónum verið góð. Nýliðun hafði verið í lagi og í síðustu skýrslu Hafrannsóknastofnunar kemur m.a. fram að ekki séu nein hættumerki að sjá varðandi nýliðun í steinbítsstofninum. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa virðulegu fisktegund, steinbítinn, en víkja aðeins að ufsanum.

Við leggjum til að ufsinn fari út úr kvótakerfinu og fyrir því eru ýmis rök. Ufsinn hefur á undanförnum árum verið notaður til að breyta í karfa annars vegar og grálúðu að langmestu leyti hins vegar. Í þetta hafa verið notuð um 1.000 tonn síðustu þrjú árin. En árin 1996--1997 voru notuð 15 þús. tonn af ufsa í tegundartilfærslu. Menn hafa einfaldlega miklar áhyggjur af því hvernig ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hefur verið varðandi ufsastofnana. Í raun má segja að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hafi bara tekið mið af því sem veiðst hafði eitt eða tvö ár á undan. Þegar menn byrjuðu að skera niður ufsaaflann eftir fiskveiðiárin 1996--1997 þá hafði það magn sem úthlutað hafði verið ekki veiðst í mörg ár. Þar með höfðu veiðar á tegundinni á vissan hátt verið frjálsar. Síðan var ufsakvótinn skorinn niður í 30 þús. tonn á fiskveiðiárinu 1997--1998. Þannig hefur kvótinn verið síðan og við höfum samt sem áður notað ákveðið hlutfall í tegundartilfærslu. Það sem hins vegar hefur verið að gerast á fiskimiðum landsins á síðasta fiskveiðiári og líka á þessu er sennilega best skýrt með því að vitna í Fiskifréttir. Þar segir í nýlegu viðtali við einn af skipstjórum flotans, með leyfi forseta:

,,Þorskveiðar gætu stöðvast vegna skorts á ufsakvóta.``

Síðan segir einfaldlega að ufsagengdin hafi aukist mikið þó fyrir því hafi ekkert verið spáð, enda eru vísindi Hafrannsóknastofnunar og kunnátta til að spá hvort heldur er um niðursveiflu eða uppsveiflu í ufsastofninum nánast engin. Þeir hafa í raun sáralitlar forsendur til þess og það hefur sýnt sig á undanförnum árum. Það sem skipstjórarnir voru að tala um á síðasta ári, að það væri verulega aukin ufsagengd hér við land og mundi verða til vandræða ef ekki yrði aukið verulega við ufsaaflann, er að sýna sig núna. Í Fiskifréttum sem komu út 13. október segir, með leyfi forseta, í grein eftir Kristján Þórarinsson:

,,Þar til nauðsynlegar úrbætur hafa verið gerðar á ufsarannsóknum verður að treysta á upplýsingagjöf sjómanna.`` Svo mörg voru þau orð.

Sjómenn hafa haldið því fram að núna seinni hluta síðasta fiskveiðiárs og á þessu hafi ufsagengd aukist mikið og menn muni örugglega lenda í miklum vandræðum með þessa tegund miðað við þann kvóta sem lagður hefur verið til. Við flutningsmenn teljum að rannsóknir á nýtingu ufsans séu ekki það langt komnar að ástæða sé til að hafa þessa tegund í fiskikvótanum. Þetta er tegund sem flakkar á milli lögsagna og er mjög hreyfanleg. Við teljum að þessi tegund eigi ekki heima í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu. Nóg um það.

Þá komum við að b-lið 4. greinar frv. sem yrði þá bráðabirgðaákvæði XXIX og fara þau nú að nálgast 30 með þessum tillöguflutningi. Þar segir einfaldlega og við leggjum til eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Á fiskveiðiárinu 2000/2001 skal auka úthlutun aflaheimilda um allt að 1,5% af heildaraflamarki þorsks og ýsu og því úthlutað sérstaklega til aflamarksskipa sem voru minni en 200 brúttórúmlestir 1. september 2000. Skilyrði þess að aflamarksskip fái úthlutun er að skipið hafi hinn 1. september 2000 haft minna aflamark en 80 þorskígildistonn. Úthlutunarréttur hækkar með fækkandi þorskígildistonnum aflamarks vikomandi fiskiskips niður í 20 þorskígildistonn eða minna miðað við 1. september 2000. Jafnframt er skilyrði að fiskiskipið hafi leigt til sín á Kvótaþingi 40 þorskígildistonn eða meira fiskveiðiárið 1999/2000. Þá þarf aflamarksskip að hafa veitt 75% af aflamarki sínu í botnfiski fiskveiðiárið 1999/2000.

Aflaheimildir þessar verða ekki framseldar til annarra fiskiskipa og teljast ekki með þegar veiðiskip uppfyllir 50% veiðiskyldu hvers árs, sbr. ákvæði 12. gr. laga þessara. Heimildum þessum verður aðeins úthlutað til dagróðrabáta.

Hámarksúthlutun eftir stærðarflokkum fiskiskipa í brúttórúmlestum annars vegar og þorskígildishámarki hins vegar er sem hér segir:``

Síðan kemur tafla sem skýrir það út hvaða hugsun liggur þarna að baki. Hún er einfaldlega sú að þeir sem hafa verið í útgerðarrekstri á undanförnum árum og verið hvað drýgstir við að leigja til sín aflaheimildir frá hinum sægreifunum sem ekki þurfa á þeim að halda fái nú við endurskoðun þessara laga tímabundna úthlutun þannig að á þessu fiskveiðiári, meðan menn eru að endurskoða fiskveiðistjórnina, sé litið til þess að þessir menn hafa verið að gera út, hafa stundað fiskveiðar, hafa skapað atvinnu og veitt heimildir sínar, annað en þeir sem hafa verið að leigja þær.

Við flutningsmenn teljum a.m.k. að tími sé til kominn að meðan verið er að endurskoða þessi lög og finna annan farveg fyrir fiskveiðistjórnina, vonandi réttlátari, heiðarlegri og skiljanlegri en það kerfi sem við höfum í dag, þá sé eðlilegt að þessum útgerðum verði úthlutað aflaheimildum eins og lagt er til í þessari töflu. Þessi úthlutun gæti mest orðið 80 tonn á skip en minnst 10 tonn miðað við þá framsetningu sem ég hef farið yfir.

Síðan er hér viðbótarliður í 5. mgr. b-liðar 4. gr. og þar segir, með leyfi forseta:

,,Einnig skal þeim útgerðaraðilum, sem gera út fiskiskip minni en 20 brúttórúmlestir að stærð, uppfylla ekki skilyrði 1. mgr. um að hafa leigt til sín 40 þorskígildistonn eða meira á fiskveiðiárinu 1999/2000 og höfðu minna aflamark 1. september 2000 en 15 þorskígildistonn, úthlutað allt að 15 tonnum í þorskígildum þorsks og ýsu. Þó skal þeim aldrei úthlutað meira en þeim afla sem þau veiddu og lönduðu á fiskveiðiárinu 1999/2000.

Ekki er gert að skilyrði að þessi skip hafi leigt til sín viðbótaraflaheimildir.``

Hér víkjum við að vandamálum þeirra sem m.a. hafa stundað grásleppuveiðar á undanförnum árum og eiga tiltölulega litlar aflaheimildir. Flestir hverjir hafa þeir þó einhverjar heimildir í þorski en völdu sér á sínum tíma að fara inn í aflamarkskerfið og eru þess vegna ekki aðnjótendur þeirrar reglu sem hæstv. ríkisstjórn fór með í gegnum þingið í fyrra og gildir innan smábátakerfisins, að hafa frelsi til að veiða aðrar fisktegundir en þorsk. Við teljum að með þessu mundi gætt ákveðins jafnræðis og komið til móts við þessa aðila sem enn eru í stóra aflamarkskerfinu. Þeir eru reyndar orðnir tiltölulega fáir vegna þess að kerfið bauð auðvitað upp á það, sem menn óttuðust á sínum tíma, að verða hreint braskkerfi. Smábátaflotanum sem fór inn í stóra kvótakerfið á sínum tíma var nánast eytt af stærri útgerðum sem keyptu flotann upp og notuðu til að framleiða ný fiskiskip. Mig minnir að t.d. hafi farið 14 eða 16 fiskiskip í að búa til einn skuttogara og þar af held ég að tíu bátar hafi verið undir tíu lestum.

Þetta er saga flotans sem fór inn í stóra aflamarkskerfið á sínum tíma og nú eru þar tiltölulega fá skip. Við teljum að þessi hópur hafi algjörlega setið óbættur hjá garði og ekki notið neinnar ívilnunar þrátt fyrir að tekjur þeirra vegna grásleppuveiðanna hafi hrunið. Þar að auki hafa þeir orðið að þola ýmsar skerðingar í gegnum kerfið og hefur það margoft verið rætt í þessum sal og eins í sjútvn.

Við teljum réttlætanlegt, eðlilegt og sjálfsagt að gera þær lagfæringar sem hér eru lagðar til. Hér er að vísu lagt til að 1,5% verði bætt við aflaheimildir í þorski og ýsu þegar á þessu ári. Við höfum sem betur fer ekki trú á að það muni skaða þorskstofninn eða ýsustofninn þannig að nokkur hætta sé á að afkomu stofnanna verði raskað, enda kom fram hjá fiskifræðingum á síðasta vori að skekkjumörk þeirra í framsetningu aflaheimilda gætu verið allt að 30%. Þeir vildu matreiða það þannig að þau hefðu verið 20%. En ef menn lesa skýrslur þeirra á milli ára og skoða tölur þá er niðurstaðan nákvæmlega 29,3% munur milli þess hvernig þorskstofninn dróst saman og áætlana um að hann mundi vaxa frá árinu á undan. Þetta geta menn skoðað með því að lesa skýrslurnar sjálfir.

Við teljum að það sem hér er lagt fram sé sanngjarnt og leiði til eðlilegs framgangs fyrir þá sem hafa verið notaðir sem leiguliðar á undanförnum árum og þeir fái eitthvert smávegis réttlæti meðan verið er að endurskoða lögin. Þetta er eðlileg lagfæring, tímabundin, óframseljanleg, eingöngu þeim til handa sem á annað borð gera út fiskiskip og stunda fiskveiðar.