Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 16:17:07 (545)

2000-10-16 16:17:07# 126. lþ. 10.6 fundur 22. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það var nú ástæða fyrir því að steinbíturinn var tekinn inn í kvóta á sínum tíma. Ein ástæðan var sú að það þótti eðlilegt að þessi tegund yrði ekki sett í þá hættu að verða ofveidd vegna þess að veiðar á henni voru frjálsar. Ég hef lesið skýrslu Hafrannsóknastofnunar en ekki beinlínis velt því fyrir mér hvort óhætt væri að hafa frjálsar veiðar á ákveðnum tegundum eða fleiri tegundum en þessari. Ég hef litið svo á að kvótakerfið byggðist á því að veiðar væru skammtaðar á öllum tegundum. Það er í raun lykillinn að því að kerfið gangi almennilega upp.

En það má vel vera að að mörgu leyti sé ekki gripið nógu fljótt inn í ef fiskstofnar við landið breytast hratt. Ég hef heyrt það frá sjómönnum að mjög mikill ufsi sé á veiðislóðum í dag sem ekki virðist hafa komið fram í rannsóknum Hafrannsóknastofnunar á ufsastofninum.

Þá er það spurning eins og hv. þm. segir að vegna þess að þetta er flökkutegund og kemur snögglega inn í veiðina þá þurfi jafnvel að taka á því með öðrum hætti. Þannig mætti breyta kvótanum örar og ekki ástæða til að hanga í því að heimildir séu ákveðnar einu sinni á ári. Jafnvel væri ástæða til varðandi einstakar tegundir að endurskoða úthlutunina oftar en tvisvar eða oftar en þrisvar. Mér finnst það möguleiki.