Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 16:34:14 (549)

2000-10-16 16:34:14# 126. lþ. 10.6 fundur 22. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[16:34]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það tókst fyrr að stjórna veiðunum á uppsjávarfiskunum nákvæmlega, einfaldlega vegna þess að það var auðveldara. Menn bönnuðu bara veiðarnar þegar búið var að veiða það sem ákveðið var að taka og það tókst sem sagt fyrr að stjórna þeim veiðum. Það er auðvitað ástæðan. Ég held að það hafi út af fyrir sig ekkert með það að gera hvort kvótakerfið sé gott eða slæmt. Það er hægt að stjórna uppsjávarveiðum í kvótakerfi og sóknarkerfi. Það er ekki vandinn. Þar er hægt að stjórna þessu auðveldar en í hinum tegundum.

Ég tel að umræðu um sjálfa fiskveiðistjórnina hafi vantað og sárlega hafi vantað þá umræðu á undanförnum árum. Umræðan sem við höfum verið að fara í gegnum undanfarin ár hefur staðið um allt annað. Hún hefur verið átök um eignarhaldið á auðlindinni. Hún hefur verið átök um kvótakerfið eins og menn tala um það með stórum staf þar sem menn hafa tekist á um það hverjir ættu að eiga þessa auðlind og nýta hana. Það hefur ekki farið mikið fyrir þeirri umræðu sem þyrfti að vera miklu meiri um það hvernig við náum bestum árangri við að nýta fiskstofnana og þeir sem kannski hafa mest vit á því hafa verið dálítið haltir í umræðunum vegna þess að þeir hafa verið svo uppteknir af því að hugsa um gullfótinn undir útgerðinni sinni sem þeir telja að sé þetta eignarhald á fiskstofnunum og sá möguleiki að selja öðrum aðgang að henni.