Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 16:45:30 (555)

2000-10-16 16:45:30# 126. lþ. 10.6 fundur 22. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[16:45]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Þar sem ég er meðflm. frv. sé ég ástæðu til að fara örfáum orðum um það þó að ég ætli ekki að lengja umræðuna mikið.

Hv. 4. þm. Vestf., fyrsti flm. tillögunnar, Guðjón A. Kristjánsson, hefur gert mjög vel grein fyrir markmiðum okkar og innihaldi frv. um breyting á lögunum nr. 38/1990 en ég vil einungis fylgja þessu eftir með því að árétta að auðvitað er meginmarkmiðið að auðvelda útgerðinni og þá einkum kvótalitlum einyrkjum og útgerðarmönnum smærri fiskiskipa að brúa bilið þar til heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða er lokið. Þær aðgerðir sem gripið var til á síðasta þingi og ná til þessa fiskveiðiárs sneru m.a. að því að fresta kvótasetningu á ýsu og ufsa og steinbíti í smábátaveiðikerfinu.

Lagt er til að ákvæði sóknardagatalningar verði lagfærð þannig að veiðitími úr höfn í höfn megi teljast 12 klst. Ég hef heyrt það í umræðunni, virðulegi, forseti, að þingmenn hafa lýst áhuga sínum á því að ræða og setja þessi ákvæði inn og telja það réttindamál. Með því er verið að gera vinnutímann við þær veiðar þannig að verjandi sé og samboðið þeim almennu reglum um að hvíldartími verði eigi minni en átta klst. á sólarhring. Kjósi sjómenn að veiðiferð þeirra sé lengri en 12 klst. samfellt verður það þeirra eigin ákvörðun sem ekki er knúin fram með lögum og reglum stjórnvalda.

Ég tel að mjög mikilvægt sé að fara í að skoða þetta frv. alvarlega einmitt til að brúa bilið yfir í það að fram kemur væntanlega innan nokkurra mánaða heildarendurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum að engan tíma megi missa og þess vegna sé þetta frv. mjög nauðsynlegt. Við viljum viðhalda og efla smábáta- og bátaútgerð á nýjan leik og láta slíka útgerð njóta aukins forgangs á grunnmiðum næst landinu og hvetja um leið til notkunar vistvænna veiðiaðferða, orkusparnaðar og umhverfisvænnar þróunar í greininni. Kostir þeirrar útgerðar eru einnig þeir að oft er um að ræða einyrkja og fjölskyldufyrirtæki og þannig viðhelst fjölbreytni í greininni, nýliðun á sér frekar stað o.s.frv. Þetta teljum við mjög mikilvægt og þess vegna er megintilgangur frv. sá að gera sérstaklega þessu útgerðarmynstri ekki erfitt fyrir og að við sjáum til þess að á þeim yfirgangstíma frá því að við förum væntanlega yfir í nýtt og betra fiskveiðistjórnarkerfi sé þessum hluta flotans ekki íþyngt.

Að svo mæltu vonast ég til að málið fái gaumgæfilega umfjöllun í hv. sjútvn. Eins og ég sagði áðan hefur hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, gert skilmerkilega grein fyrir smáatriðum málsins í ræðu sinni og sé ég ekki ástæðu til að fara frekar í þau mál en lýsti almennt sjónarmiðum mínum og míns flokks varðandi grunninn að þessari tillögu um breytingar á lögum.