Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 16:57:58 (559)

2000-10-16 16:57:58# 126. lþ. 10.7 fundur 21. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflahlutdeild skólaskipa) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[16:57]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, með síðari breytingum. Þar sem ég er flm. ásamt hv. 4. þm. Vestf., Guðjóni A. Kristjánssyni, vil ég aðeins ræða um frv. og það atriði að bæta við 6. gr. laganna og setja nýja málsgrein sem orðast þannig:

,,Ráðherra er heimilt að úthluta aflahlutdeild til skipa, allt að 500 þorskígildistonnum árlega, sem gerð eru út sem skóla- eða starfsþjálfunarskip fyrir ungt fólk. Þessa aflahlutdeild má ekki framselja til annarra skipa. Ráðherra setur nánari reglur um úthlutunina.``

Við þekkjum öll að í gangi hafa verið verkefni af þessu tagi víða um land en eflaust hefur það verkefni sem getið er um í grg. og unnið hefur verið af Karel Karelssyni á bátnum Haftindi, sem hann hefur stýrt frá upphafi, verið hvað atkvæðamest í að veita þá þjónustu sem hér er rætt um. Sú þjónusta hefur verið ætluð fólki á aldrinum 16--20 ára sem átt hefur erfitt uppdráttar félagslega og vill læra sjómennsku. Það er líka engu minna mikilvægt að gera sér grein fyrir því að fjöldi grunnskólanema hefur sóst eftir því að geta kynnst sjávarútveginum og það hefur alltaf verið til trafala að þeir sem bjóða þessa þjónustu eða geta hugsað sér að bjóða hana hafa ekki haft veiðiheimildir til að standa að slíku. Þó hafa um 2000 grunnskólanemar tekið þátt í þessu verkefni frá upphafi. En ef til vill vegna þess að veiðiheimildir skortir er verið að gera út á aðrar veiðar sem hafa kannski minna vægi í veiðinni sem slíkri og þess vegna er að okkar mati mjög brýnt að rýmkað sé til þannig að þessi starfsemi sem um er getið geti verið á nokkuð traustum grunni.

[17:00]

Eins og fram kom hjá hv. flm. Guðjóni A. Kristjánssyni er alveg ljóst og við gerum okkur fulla grein fyrir því að verði frv. þetta samþykkt þarf jafnframt að setja mjög skýrar reglur um úthlutun heimildanna til að koma í veg fyrir misnotkun.

Ég held að það komi skýrt fram í grg. okkar hvert markmiðið er og eftir því sem heyrst hefur á máli hv. þm. er það flestra mat að um mjög brýnt verkefni sé að ræða. Spurningin er fyrst og fremst um að koma því í lög að ráðherra geti úthlutað veiðiheimildum til þessara aðila þannig að myndarlega verði staðið að verki.

Ég vona svo að frv. fái góða og jákvæða umfjöllun í sjútvrn. og lýk þar með máli mínu.