Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:14:43 (561)

2000-10-16 17:14:43# 126. lþ. 10.7 fundur 21. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflahlutdeild skólaskipa) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:14]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að taka undir þær áherslur sem fram koma í frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða þar sem lagt er til að úthluta aflaheimildum til skipa, allt að 500 þorskígildistonnum árlega, sem gerð eru út sem skóla- eða starfsþjálfunarskip fyrir ungt fólk.

[17:15]

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi menntunarinnar í þessari grein, að efla hana og styðja við þá sem axla ábyrgð og taka að sér kennslu og fræðslu í þessum greinum og styrkja starfsmenntun í greininni. Það er í rauninni alveg fráleitt að skólar og skip sem hafa þetta hlutverk skuli ekki eiga nánast sjálfkrafa aðgang að þessu sem kennslutæki. Við getum tekið til samanburðar skóla sem ég þekki, landbúnaðarskóla. Ekki væri gott að að kenna mjólkurframleiðslu ef við hefðum ekki aðgang að kúm og mjaltatækjum til þess að láta nemendur læra þessa vinnu. Þá væri jafnfráleitt að slík bú hefðu ekki kvóta á mjólk eða á kjöti þegar út í það er komið.

Herra forseti. Þetta er mikilvægt mál. Það er hluti af þeirri virðingu sem við berum fyrir þessari menntun. Það er hluti þeirrar virðingar sem við berum fyrir þessum atvinnuvegi og afar mikilvægt til þess að styrkja og hvetja menntun á þessu sviði. Því er einboðið að málið fái jákvæða afgreiðslu á þinginu.