Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:27:59 (564)

2000-10-16 17:27:59# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sérstaklega var óskað eftir viðverðu minni í þessari umræðu og ég hef skilið það svo að tilefnið hafi verið það að ég hafi sagt það vera dæmi um breyttar aðstæður í íslensku samfélagi að rétt væri að endurskoða reglur um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi. Það er alveg rétt að ég hef staðið að þessum lögum sem hér eru til umræðu. Þau voru fyrst sett 1991 og síðan voru gerðar breytingar á þeim 1993 og 1996 í ljósi breyttra aðstæðna.

Aðalatriðið er að við höfum tekið upp frjálsan fjármagnsmarkað hér á landi sem þýðir að Íslendingum er heimilt að fjárfesta eins og þeim þykir rétt og þeir vilja gera á Evrópska efnahagssvæðinu í hverju svo sem þeir vilja taka sér þar fyrir hendur. Og þeir aðilar sem standa að Evrópska efnahagssvæðinu með okkur, hvort sem það eru lönd Evrópusambandsins eða önnur ríki sem við erum í samstarfi við, mega fjárfesta hér á landi. Við sömdum um eina mikilvæga undantekningu á sínum tíma og það er undanþága að því er varðar sjávarútveginn.

Við verðum að sjálfsögðu að gera okkur grein fyrir því að í þessu máli er bæði um kosti og galla að ræða. Þegar þessir samningar voru gerðir var íslenskur sjávarútvegur ekki eins öflugur og hann er nú. Hann hafði ekki farið út í fjárfestingar erlendis í neinum þeim mæli sem orðið hefur raunin á og menn höfðu ekki það sjálfstraust í þessari samkeppni sem þeir hafa nú.

[17:30]

Ég held að almenn samstaða sé um að það sé á engan hátt hættulegt eða neitt því til fyrirstöðu að erlendir aðilar fjárfesti í vinnslu sjávarafurða. Ég hef ekki heyrt betur en nokkuð almenn samstaða sé um það. Það er svo undarlegt að áður en þessi lög voru sett á sínum tíma sneri undantekningin frá fjárfestingarfrelsinu fyrst og fremst að fiskvinnslunni en minna að útgerðinni. Hins vegar hefur það verið auðlindin sem menn eru hræddir um og það er eðlilegt.

Mér finnst hins vegar rétt að fara yfir það hvort ekki er hægt að tryggja það með öðrum hætti. Nú er ég ekki sammála því sjónarmiði að með núgildandi lögum hafi eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávarins ekki verið tryggðar og breyta þurfi lögum eða stjórnarskrá sérstaklega til að svo sé. Ég tel að núgildandi stjórnarskrá og núgildandi lög tryggi með öllu eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni þó ekkert sé á móti því að gera það enn frekar.

Þá kemur upp það vandamál hvernig við tryggjum best afkomu íslensks sjávarútvegs og aðgang hans að auðlindunum í kringum landið ef tekið verður upp algjört frelsi í fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi, sem ég hef ekki gert að orðum mínum. Ég hef sagt að ég telji rétt að endurskoða þessi lög, endurskoða þessa stefnu og tel að þau séu ekki lengur í takt við tímann og þjóni ekki með þeim hætti hagsmunum sjávarútvegsins sem ég taldi í upphafi.

Það liggur fyrir að þau fyrirtæki, sem eru í sjávarútvegi, eru í blönduðum rekstri, þau eru almennt bæði í veiðum og vinnslu. Það er afskaplega óheppilegt að skilja þar algjörlega á milli og gera stórum og rótgrónum fyrirtækjum skylt að reka vinnsluna í einu fyrirtæki og útgerðina í allt öðru fyrirtæki. Þess vegna hafa menn sett inn þau hlutföll sem eru í lögunum, að í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé, og síðan 33% þegar m.a. er rætt um óbeina eignaraðild.

Ég tel að við þurfum að fara yfir þetta á nýjan leik. Með því er ég ekki að segja að ekki þurfi aðrar girðingar og önnur ákvæði sem tryggi betur vinnslu aflans hér á landi. Að mínu mati kemur fyllilega til greina að setja það í lög að skylt sé að landa öllum afla af Íslandsmiðum í íslenskum fiskihöfnum til sölu og úrvinnslu þar.

Það er alveg ljóst að t.d. í Evrópusambandinu hefur það verið gert í vaxandi mæli, t.d. í Bretlandi, að setja slík skilyrði og meira að segja Evrópudómstóllinn hefur viðurkennt það. Ég minni á þær breytingar sem gerðar voru í Bretlandi og kynntar af Tony Blair á sínum tíma gagnvart framkvæmdastjóra Evrópusambandsins og Evrópusambandið hefur látið það gott heita. Framkvæmdastjóri þess sagði í athugasemdum, sem voru þá birtar, að þar sem um mikilvæga þjóðarhagsmuni væri að ræða, gerði Evrópusambandið ekki athugasemdir við það. Nú kemur það út af fyrir sig ekki beint málinu við vegna þess að við erum ekki á nokkurn hátt bundnir af skilmálum Evrópusambandsins að þessu leytinu til. En við þurfum að fara yfir þetta og athuga hvort við getum ekki tryggt íslenskan sjávarútveg betur með öðrum hætti, m.a. að því er varðar ákvæði um löndun aflans hér á landi því íslenskur sjávarútvegur þarf á því að halda að fá nægilegt fjármagn til uppbyggingar sinnar.

Það gengur heldur ekki til lengdar að það sé slíkt misvægi eins og hv. flutningsmaður gat um að því er varðar verðbréfaeign Íslendinga erlendis og hins vegar verðbréfaeign erlendra aðila hér á landi. Þetta hefur skapað ákveðin vandamál í hagkerfinu og miðað við það mikla fjármagn sem hefur verið að fara út úr hagkerfi okkar þurfum við á því að halda til mótvægis að fá meira inn í landið. Aðalatriðið er að við búum við fjárfestingafrelsi, við erum komin inn á opinn markað og við munum ekkert snúa til baka í þeim efnum. Við þurfum að laga sjávarútveginn að þessu umhverfi eins og alla aðra atvinnuvegi. Ég tel að við höfum stigið varlega fram í þessu efni en ég er þeirrar skoðunar, eins og ég sé að hv. flutningsmaður er, að kominn sé tími til að endurskoða þessar reglur. Ég ætla ekki að segja nákvæmlega til um það hvernig þær eiga að vera eða hvenær við eigum að endurskoða þær. En ég er þeirrar skoðunar að rétt sé að fara út í slíkar breytingar. Við höfum ekki rætt það sérstaklega í mínum flokki hvernig þær eiga nákvæmlega að vera en við erum tilbúin til að starfa að því með öðrum og þess vegna held ég að það sé af hinu góða að þessi umræða fer fram. Sérstaklega er mikilvægt að hún fari fram innan sjávarútvegsins sjálfs því að þar eru þær raddir innan dyra að rétt sé að fara út í breytingar þannig að ég er ekkert einn um að hafa breytt um skoðun í þessu máli. Ég heyri ekki betur en mjög stór hluti þeirra aðila sem standa í íslenskum sjávarútvegi hafi svipuð sjónarmið þó menn vilji gæta þarna allrar varúðar.