Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:37:43 (565)

2000-10-16 17:37:43# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:37]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þær útskýringar og þær útleggingar á yfirlýsingum hans um þetta mál sem hafa komið fram. Hér kemur fram að hann hefur ekki gert algert frelsi að sínum orðum, heldur fyrst og fremst það að menn og þá hann og flokkur hans séu tilbúnir til að endurskoða þau ákvæði sem nú gilda.

Mér fannst gæta ákveðins misskilnings í orðum hæstv. ráðherra þar sem hann segir að óheppilegt sé að gera stórum og rótgrónum fyrirtækjum skylt að skilja í sundur vinnslu- og veiðiþáttinn. Samkvæmt því frv. sem er verið að ræða er slíkt ekki gert að neinni skyldu, heldur er fyrst og fremst um það að ræða að ef menn vilja efna til samstarfs, þá geti menn og muni þá aðskilja þann þátt sem þeir ætla sér að efna til samstarfs um. Ég geri mér hins vegar ljóst að þegar menn eru búnir að segja B í þessum efnum --- ég geng út frá að menn séu búnir að segja A-ið --- þá er kannski ekki langt í C-ið og þess vegna er alveg rétt sem hér kemur fram að menn þurfa að hafa málið allt að hluta til undir.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. utanrrh., því hann nefnir möguleikann á löndunarskyldu sem atriði sem við getum sett inn til þess að tryggja ákveðið forræði, a.m.k. hvað varðar nýtingu þess afla sem kemur úr auðlindinni eða aðgangs að honum, hvernig hann telji að það gangi. Nú hefur það verið svo að við höfum ekki verið með neins konar löndunarskyldu, íslensk skip hafa í rauninni getað landað þar sem þeim sýnist, hvort sem er innan lands eða erlendis. Hvernig sér hann fyrir sér að það geti gerst að löndunarskylda verði sett á? Hefur hann þá einhverjar frekari hugmyndir um hvernig slíkt gæti verið útfært?