Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:39:57 (566)

2000-10-16 17:39:57# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst tryggja að Íslendingar hafi nauðsynleg og eðlileg yfirráð yfir mikilvægustu auðlind okkar. Ég geri mér grein fyrir því að með því að koma á algjöru fjárfestingafrelsi í sjávarútveginum geta skapast þar ákveðnar hættur, ekkert ósvipaðar þeim sem hafa komið upp í Evrópu og nefndar eru ,,kvótahopp`` og þess vegna megi ekki líta fram hjá þeim hættum í endurskoðun þessara mála og þar af leiðandi sé rétt að athuga hvort einhverjar aðrar breytingar á lögum, t.d. að því er varðar löndun á afla, geti tryggt okkur nægilega í því sambandi. Þetta er m.a. byggt á þeirri reynslu sem aðrar Evrópuþjóðir hafa orðið fyrir og mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að fara yfir það.

Ég ætla að sjálfsögðu ekki að tíunda nákvæmlega hvernig þetta á að vera. Hins vegar fagna ég umræðunni og ég tel að við eigum að halda áfram að ræða þessi mál. Ég held að það liggi engin ósköp á í þessum efnum en ég held að sú umræða, sem er komin í gang, sé til góðs. Fyrst við töldum rétt að gera breytingar á þessum lögum eftir að þau voru sett fyrst 1993 og síðan 1996 hlýtur að vera eðilegt að fara að huga að breytingum núna fjórum árum eftir síðustu breytingu.