Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:43:03 (568)

2000-10-16 17:43:03# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál hefur ekki verið rætt í ríkisstjórninni. Ástæðan fyrir því að þetta þótti fréttaefni þegar vitnað var í orð mín, var einfaldlega sú að ég var að svara fyrirspurnum nemenda við Samvinnuháskólann á Bifröst og m.a. var spurt um þetta mál. Ég sagði frá því að þarna hefðu orðið þær breytingar í samfélaginu að ég teldi fulla ástæðu til að við endurskoðuðum afstöðu okkar í þessu máli og væri dæmi um breyttar áherslur af minni hálfu en það hefði að mínu mati verið rangt af mér að svara þessari fyrirspurn með öðrum hætti. En ég var á engan hátt að boða að verið væri að setja í gang endurskoðun á vegum ríkisstjórnarinnar á þessum málum. Það verður sjálfsagt rætt í ríkisstjórninni einhvern tímann á næstunni en það hefur ekki verið rætt þar fram að þessu.