Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:54:57 (571)

2000-10-16 17:54:57# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:54]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. á ekki í neinni deilu við mig um það hverjir eigi eða hverjir eigi að eiga fiskimiðin við Íslandsstrendur. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þau séu þjóðareign. Og ég minni hæstv. utanrrh. á hvaða hlut sá sem hér stendur átti í því að þau ákvæði komu í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Því var hins vegar haldið fram bæði þá og síðar að lítið hald væri í þessu ákvæði, það væri merkingarlítið. En það hefur komið í ljós, m.a. í dómum Hæstaréttar síðar, að þetta er ekki merkingarlítið ákvæði, aldeilis ekki.

Hins vegar ítreka ég þá skoðun mína að það er miklu tryggara að setja ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá en að hafa það í almennum lögum. Í fyrsta lagi þarf að skilgreina hvað þjóðareign þýðir betur en gert er og í öðru lagi þarf að ganga þannig frá að það verði ekki afgreitt og því ekki breytt með einfaldri lagasetningu með einföldum þingmeirihluta frá Alþingi, því verði ekki breytt öðruvísi en að undangengnum kosningum og tveimur breytingum á stjórnarskrá þannig að það sé alveg ljóst að misvitur þingmeirihluti geti ekki haggað þeirri niðurstöðu.

Hins vegar eru nú ekki allir Íslendingar eins mikið sammála um þjóðareign á fiskimiðunum og við hæstv. utanrrh. Ég minni hæstv. utanrrh. t.d. á það að einn af nefndarmönnum í auðlindanefnd var á þeirri skoðun og gerði um það bókun í nefndaráliti sínu, að hann teldi að þessi afnotaréttur ætti að lenda í höndum einkaaðila og verða einkaeign. Og það eru meira að segja þingmenn hér inni í þessum sal sem eru þeirrar skoðunar, þannig að það er nú ekki öll þjóðin sammála um þetta.