Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:58:18 (573)

2000-10-16 17:58:18# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:58]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það hafa allir stjórnmálaflokkar á Íslandi sem setið hafa í ríkisstjórnum komið með einum eða öðrum hætti nálægt löggjöf um stjórn fiskveiða. Það liggur alveg fyrir og hefur aldrei annað legið fyrir.

Hins vegar hefur það líka legið fyrir að einstakir þingmenn innan þessara flokka höfðu mjög misjafnar skoðanir á þeim lagaákvæðum sem sett voru, mjög misjafnar skoðanir, alveg eins og er innan flokks hæstv. utanrrh. Ég veit ekki betur t.d. en að þingflokksformaður Framsfl. sé allt annarrar skoðunar en margir aðrir í þeim flokki og ekkert við það að athuga, nákvæmlega ekki neitt. Menn hafa leyfi til þess að hafa sínar skoðanir jafnvel um stórmál eins og þetta.

Og hæstv. utanrrh. klínir því ekkert á mig að ég sé höfundur eða einn af höfundum kvótakerfisins. Ég tek því hins vegar með þökkum að hafa átt hlut að því að í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða var ákveðið að fiskimiðin við strendur Íslands skuli vera þjóðareign og að úthlutun aflaheimilda leiði ekki til þess að bætur þurfi að koma fyrir þó að því yrði breytt. Ég gengst við því og skal fúslega viðurkenna það að ég átti hlut að því.