Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 17:59:59 (574)

2000-10-16 17:59:59# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[17:59]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það eru vissulega athyglisverðar umræður sem hér hafa farið fram í dag. En þar sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson nefndi til sögunnar þá þingmenn Sjálfstfl. sem hefðu tekið til máls, m.a. hv. þm. Pétur Blöndal, þá vil ég líka minna á að hv. þm. Stefanía Óskarsdóttir tók einnig þátt í umræðunni og lýsti skeleggri skoðun sinni.

[18:00]

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spyr hvort sjútvrh. muni hafa frumkvæði að því að setja vinnu af stað í þessu efni? Því er til að svara að hann mun ekki gera það einfaldlega vegna þess að málið er á valdsviði hæstv. viðskrh.

Ég hef hins vegar talið ástæðu til að fjalla um þetta mál í fjölmiðlum að undanförnu og reyndar verið að gera athugun á því síðustu vikurnar, jafnvel síðustu mánuðina að segja má, og sú athugun hefur leitt í ljós að óbeint geta erlendir aðilar átt allt að 49,9% í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki sem stundar bæði útgerð og frumvinnslu. Þetta er mjög í takt við það sem er í þeim löndum þar sem við höfum verið að fjárfesta, t.d. Chile og Mexíkó þar sem þessi mörk eru líka 49,9%.

Það hefur líka komið í ljós að þessar heimildir hafa verið notaðar tiltölulega lítið. Ég hef rætt þetta sérstaklega í samhengi við útrás íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og hafði vilja til þess að skoða það sérstaklega. En við þessa athugun og samtöl við þá aðila sem í þessu hafa staðið hefur komið í ljós að við höfum ekki nýtt þessa möguleika nema afar takmarkað. Eiginlega hefur ekki verið hægt að benda mér á það að lögin, eins og þau eru nú, hafi hindrað neitt það sem við höfum viljað gera í þessum efnum.

Því tel ég að áður en lengra verður haldið sé nauðsynlegt að láta reyna á hvaða möguleikar eru raunverulega fyrir hendi eins og löggjöfin er í dag.