Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:07:24 (578)

2000-10-16 18:07:24# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:07]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er einungis eitt atriði sem mig langar til þess að koma að í þessari umræðu. Ég tók mjög grannt eftir því að hæstv. utanrrh. sagði að hann teldi að þessi mál ættu að koma til skoðunar, en að ekkert lægi á, hægt væri að velta þeim fyrir sér í einhvern tíma. Til þess að tryggja síðan yfirráð yfir auðlindinni þá benti hann á t.d. þann möguleika að gera það að skyldu að landa á Íslandi veiði af Íslandsmiðum.

Hann kom síðan að öðru mjög mikilvægu atriði sem var að hann tók það fram enn einu sinni að sú tillaga auðlindanefndar yrði afgreidd að fest verði í stjórnarskrá ákvæði um yfirráð og eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni og ekki er hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að hann líti þá þannig á að það ákvæði hljóti að verða haft fullkomlega til hliðsjónar þegar menn fara að fást við að breyta lögunum um stjórn fiskveiða sem stendur til að gera hér í vetur samkvæmt yfirlýsingum hæstv. sjútvrh.

Þessi tvö atriði skipta mjög miklu máli. Það hlýtur að skipta öllu máli að stjórnarskrárákvæðið liggi fyrir ef það á að fara að ræða um það í alvöru að leyfa útlendingum að kaupa sig inn í sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi. Þá hljóta menn að þurfa að vita hvernig eignarhaldinu á veiðiheimildunum á að vera fyrirkomið. Og með stjórnarskrárákvæðinu er það mál fest betur í sessi en það er núna.

Mér finnst full ástæða til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann sé sammála þessum atriðum sem hæstv. utanrrh. nefndi sem skilyrði fyrir því að hægt sé að ræða af alvöru um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi. Ég skildi það þannig að hann væri í raun að tala um þessi tvö atriði sem skilyrði fyrir því. Er hæstv. ráðherra sammála hæstv. utanrrh. í þessu efni eða telur hann að fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi komi til greina að óbreyttum reglum um eignarhald á veiðiheimildunum eins og þær koma út í dag?

Mér hefur nefnilega fundist verulegur vafi leika á því hvað hæstv. sjútvrh. er að hugsa þegar hann talar um að breyta lögunum um stjórn fiskveiða. Í einu viðtali sem ég heyrði við hæstv. ráðherra kom fram að hann teldi að ekki væri samhengi milli þessara tveggja mála, þ.e. breytingarinnar á stjórnarskránni og breytingarinnar á lögunum um stjórn fiskveiða.

Ég held hins vegar að enginn vafi leiki á því að í afskilnaði auðlindanefndar er ákvæðið um breytingar á stjórnarskránni grundvöllur að niðurstöðunni um það hvað er lagt til hvað varðar þessi mál.

Ég held að það væri mikið atriði að hæstv. ráðherra kæmi því á hreint hér hvort hann er sammála hæstv. utanrrh. um framgang þessa máls.