Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:13:22 (580)

2000-10-16 18:13:22# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:13]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er þetta eins og hæstv. ráðherra sagði. Það mun auðvitað ekki ganga að breyta stjórnarskránni um leið og lögunum um stjórn fiskveiða. Hins vegar þarf að liggja fyrir hvaða breytingu menn ætla sér að gera á stjórnarskránni til þess að lögin um stjórn fiskveiða og breytingarnar á þeim lögum hafi þá þann grundvöll sem þær þurfa að hafa. Og það er auðvitað alveg greinilegt að það er forsendan fyrir tillögum auðlindanefndarinnar.

Ég tel ekki að ég hafi verið að leggja hæstv. utanrrh. orð í munn. Hann sagði mjög skýrt hér að hann teldi að það þyrfti að tryggja með ákveðnum hætti eignarhald þjóðarinnar á þessari auðlind ef farið yrði að hleypa útlendingum inn í hana. Á öðrum stað í ræðu sinni kom hann mjög skýrt að því að þetta ákvæði um breytingarnar á stjórnarskránni væri mikilvægt og minnti á að hann hefði áður nefnt við lítinn fögnuð þingmanna hér í sal að til greina kæmi að breyta stjórnarskránni.

Þetta tvennt tel ég aftur á móti, og það eru mín orð, skipta mjög miklu máli hvað það varðar hvort menn geta orðið sammála um að útlendingar geti eignast hlut í útgerð á Íslandi. Allir hljóta að sjá, hvað sem sagt er um eignarhald á veiðiheimildunum og að þjóðin eigi þetta nú allt saman, að á meðan það viðgengst að menn geta keypt og selt þessi réttindi eins og hver önnur réttindi og eignir þá skiptir það örugglega máli þegar menn ætla að fara að taka afstöðu til þess hvort útlendingar eigi að hafa möguleika á því að sópa til sín veiðiheimildum á markaði hér, sem væri hugsanlega opinn eftir breytingar sem t.d. er verið að nefna í tillögum auðlindanefndar um að framsal aflaheimilda verði gert alfarið frjálst.