Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:15:34 (581)

2000-10-16 18:15:34# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:15]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Vitur maður sagði einhvern tímann að það tæki því ekki að deila um staðreyndir. Það gæti vel verið að annar hvor okkar hafi misskilið hæstv. utanrrh. hér áðan en við höfum ekki ræðuna hans til að fara yfir og sjá nákvæmlega hvað hann sagði.

Ég skildi hæstv. ráðherra þannig þegar hann talaði um að tryggja rétt þjóðarinnar að þá væri hann að tala um að tryggja að hún nyti hags af auðlindinni og þá í því samhengi að ef erlendar fjárfestingar yrðu leyfðar þá yrði jafnframt að landa aflanum hér á landi. Ég skildi hann ekki svo að eitthvað vantaði upp á að fiskveiðistjórnarlögin, eins og þau eru í dag, tryggðu eignarrétt þjóðarinnar á auðlindinni. Þannig skildi ég þá umræðu en það mun þá væntanlega koma í ljós þegar við fáum ræðuna útskrifaða hvort um einhvern misskilning hafi verið að ræða og óþarfi að deila um það frekar.

Hins vegar fannst mér það merkilegt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði áðan um að viðskipti með aflamark eða aflaheimildir og kvóta hindri almennar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég get ekki skilið niðurstöðu auðlindanefndar á annan hátt en að gert sé ráð fyrir að frekar séu minnkaðar þær hömlur sem þegar eru í dag bæði á viðskiptum með aflaheimildir og á því hversu einstakar útgerðir geti átt stóran hlut í aflaheimildunum.

Í þessari nefnd áttu sæti þrír samflokksmenn hv. þm. Ég held að ég fari rétt með, án þess að ég kunni að skilgreina alla nefndarmenn í auðlindanefndinni út frá flokkatengslum, að það sé stærsti einstaki hópurinn sem hægt er að tengja við flokk, þ.e. þrír samfylkingarmenn og þrír flokksbundnir sjálfstæðismenn sem voru í nefndinni.