Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:33:34 (586)

2000-10-16 18:33:34# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:33]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnast vangaveltur hæstv. sjútvrh. um auðlindanefndina og hvernig menn hafi tekið niðurstöðum hennar eftir því í hvaða flokkum þeir voru þess efnis að kannski væri ástæða til að fara í sérstaka umræðu um það. Mér finnst aftur og aftur gæta ákveðins misskilnings hjá hæstv. sjútvrh. sem ástæða væri til að leiðrétta en er kannski ekki hægt í andsvörum eins og hér gefst fyrst og fremst tilefni til.

En ég vil bara segja þetta: Enn þá kannast ég ekki við að neinn af talsmönnum Samfylkingarinnar hafi talað öðruvísi en við þingmenn Samfylkingarinnar sem skrifuðum undir álit nefndarinnar. Ég kannast ekki við misstemmingar þar enn þá. Ráðherrann verður því á einhverjum tíma að útskýra betur hvað hann á við til að ég a.m.k. geti áttað mig á því um hvað hann er að fjalla.

Hins vegar finnst mér dálítið sérkennileg sú nálgun ráðherrans að þá fyrst sé ástæða til þess að endurskoða lögin um erlenda fjárfestingu að löggjöf okkar hamli útrás íslenskra fyrirtækja. Ég hefði talið eðlilegt að þetta hefði verið skoðað með öðrum hætti, þ.e. að við litum fyrst og fremst til þess hverjir eru hagsmunir íslensks atvinnulífs og þá íslensks efnahagslífs. Eins og kom fram, bæði í máli mínu fyrr í dag og eins í ræðu hæstv. utanrrh. er það sem menn á fjármálamarkaði hafa kallað gat í þessar fjárfestingar í innlendum hlutabréfum, þ.e. þær eru einungis upp á rétt rúma tvo milljarða á meðan fjárfestingar Íslendinga erlendis eru yfir eða um 160 milljarðar.