Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:37:31 (589)

2000-10-16 18:37:31# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:37]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Langt er liðið á dag og ástæða þess að ég bað um orðið voru orð hæstv. sjútvrh. áðan. Kannski er það svo að það eru komin einhvers konar hrekkjabrögð í hann ef svo má að orði komast. Það er langt liðið á dag og kannski er galsi í honum eða eitthvað í þá veruna. En a.m.k. var orðræða hans þess eðlis að hún hefur ekkert með veruleikann að gera.

Hæstv. forseti. Ég held að ef nokkur flokkur hefur talað einum rómi um álit auðlindanefndar þá sé það Samfylkingin. Ég held að hver einasti þingmaður sem hefur talað um það mál hafi tekið undir þau grundvallarsjónarmið sem þar koma fram, sem ganga fyrst og fremst út á það að þeir sem nýti auðlindina greiði fyrir hana. Það er grundvallarforsendan sem lagt er upp með. Í nál. sjálfu er síðan opnað á tvær aðferðir við það að ná inn þessu gjaldi.

Hins vegar liggur alveg skýrt fyrir, og menn þurfa ekkert að fara í neinar grafgötur með það, að Samfylkingin hefur nú þegar, og gerði það strax í fyrra, lagt fram grunnviðhorf sín í þessum málum, þ.e. í því frv. sem Samfylkingin lagði fram í fyrra um breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu þannig að sú grunnlína liggur fyrir.

Hins vegar hafa þeir sem hafa tjáð sig um álit auðlindanefndar alfarið tekið undir þau grundvallarsjónarmið sem þar koma fram. Ég veit því ekki, virðulegi forseti, hvað hæstv. sjútvrh. á við þegar hann orðar það þannig að Samfylkingin tali ekki einum rómi.

Þegar hæstv. ráðherra flutti áðan þessa undarlegu ræðu sína fékk ég það á tilfinninguna að hann væri að reyna að kaupa sig með einhverjum hætti frá þessu áliti vegna þess að eins og allir vita hefur Sjálfstfl. í gegnum tíðina skellt skollaeyrum við þeim hugmyndum að menn greiði fyrir þennan aðgang. Einhvern veginn fær maður þá tilfinningu við að hlýða á mál hæstv. ráðherra að hann sé með einhverjum hætti að reyna að koma upp á milli þeirra sem hafa talað fyrir gjaldtöku og með einhverjum hætti reynt að kaupa íhaldið frá þessari niðurstöðu á þeirri forsendu að aðrir séu ekki sammála. Það er í raun og veru eina greining mín á því að reyna að skilja hvað hæstv. ráðherra á við. A.m.k. er alveg ljóst að orð hans hafa ekkert með raunveruleikann að gera.

Sennilega er það rétt niðurstða sem ég nefndi í upphafi að það er kominn galsi í hæstv. sjútvrh. Það er langt liðið á dag, virðulegi forseti, og líklega er það eina skýringin á því að hann flytur mál sitt eins og hann gerði hér. Nema þá kannski eins og ég nefndi líka að hann sé að reyna að kaupa íhaldið frá þeirri niðurstöðu sem auðlindanefndin komst að.

Þess ber að geta að Sjálfstfl. tilnefndi fjóra menn í auðlindanefndina, Framsfl. tilnefndi tvo og stjórnarandstaðan tilnefndi þrjá. Stjórnarflokkarnir tilnefndu því sex menn í auðlindanefndina svo það verður sjálfsagt fullt starf hjá hæstv. sjútvrh. að reyna að kaupa sig frá niðurstöðu nefndarinnar.