Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:45:29 (593)

2000-10-16 18:45:29# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:45]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. fór nú aðeins út fyrir efnið í spurningu sinni. En það er rétt að rifja upp að hv. þm. var einn þeirra sem á sínum tíma flutti tillöguna um auðlindanefndina. Hann var þá í Alþb. og þáverandi þingmenn flokksins fluttu tillögu um að skipuð skyldi nefnd sem fjalla skyldi um auðlindir sem væru eða kynnu að verða í þjóðareign. Það þýðir að auðlindanefndin fjallaði ekki um þær auðlindir sem löggjafarvaldið var búið að ráðstafa með löggjöf. Því kom, virðulegi forseti, ekki til álita að fjalla um heitt vatn o.s.frv., því hafði löggjafinn þegar ráðstafað þannig að í raun var það ekki á verksviði nefndarinnar heldur þær auðlindir sem væru eða kynnu að verða í þjóðareign, ekki þær auðlindir sem var búið að skilgreina eignarrétt á með einum eða öðrum hætti. Í þessu tilviki hafði löggjafinn skilgreint eignarrétt og því kom spurningin sem hv. þm. bar upp við mig aldrei til álita í vinnu nefndarinnar.