Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:52:40 (597)

2000-10-16 18:52:40# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:52]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að rifja það upp með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að grundvallartillaga auðlindanefndarinnar snýst um breytingu á stjórnarskrá. Hún snýst um breytingu á stjórnarskrá í þá veru að þær auðlindir sem nú eru ýmist kallaðar sameign þjóðarinnar eða eru ríkisins, eins og hafsbotninn og hálendið, verði skilgreindar sem þjóðareign og að um þjóðareign gildi alveg ákveðnar reglur, m.a. þær að ef aðili fær nýtingarrétt á þjóðareign þá sé sá nýtingarréttur annaðhvort afmarkaður eða uppsegjanlegur og sé gegn gjaldi. Þetta er grundvöllurinn.

Ég geri þá kröfu til hv. þm. að hann lesi síðan annan texta sem fram kemur í áliti nefndarinnar með hliðsjón af þessu. Ef hann gerir það ekki og tekur málið úr samhengi þá er mjög erfitt að ræða málið við hv. þm. Það er mjög einfalt að taka efni viðamikillar skýrslu þannig úr samhengi að erfitt sé að svara fyrir það og það veit ég að hv. þm. skilur.

Ég geri líka kröfu til þess að hv. þm. fjalli þá fyrst og fremst um álit auðlindanefndar, það álit sem ég og fleiri gerðu samkomulag um. Það þýðir ekki að menn hefðu skrifað undir það eins og það er ef þeir hefðu skrifað það einir. Þarna er um samkomulag að ræða en hv. þm. ætti að láta vera, eins og mér fannst hann gera hér í umræðu, líklega um stefnuræðu forsrh., að eigna mönnum líka það sem kemur fram í fylgiskjölum, þó að þar sé sá fyrirvari greinilega skrifaður að þau eru fyrst og fremst á ábyrgð þeirra sem undir þau skrifa, þ.e. starfsmanna nefndarinnar.