Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:54:59 (598)

2000-10-16 18:54:59# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:54]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kom eingöngu upp til þess að reyna að átta mig á því hvað þeim orðum hafði fylgt því að mér fannst ég taka rétt eftir því hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að hann hefði sagt að texti skýrslunnar væri nefndarmanna og að það þyrfti ekki að bera sig undan því, hafi ég lagt réttan skilning í þau orð. Ég held að ég hafi nú ekki verið að vitna mikið út fyrir álitsgerðina í þeirri ræðu sem ég flutti hér fyrir nokkrum dögum, a.m.k. er tilvitnunin hér á bls. 49 í skýrslu auðlindanefndar sem nýlega kom út. Hún er svona, með leyfi forseta:

,,Þær tillögur sem hér hafa verið settar fram um sölu eða gjaldtöku af aflaheimildum eru byggðar á þeirri forsendu að stjórnkerfi fiskveiða geti skilað verulegum árangri til hagræðingar og aukinnar arðsemi í sjávarútvegi. Hver sá árangur verður er að flestra dómi öðru fremur háður tvennu: annars vegar varanleika og öryggi aflahlutdeilda og hins vegar frjálsu framsali aflaheimilda.``

Mér finnst þetta vera afar skýrt, hv. þingmenn, um að framtíðin eigi samkvæmt skýrslu auðlindanefndar að byggjast á algjörlega frjálsu framsali og óstýrðu. Það er algjörlega út í vindinn hvaða áhrif það á að hafa á byggðarlögin og fólkið í landinu eins og það hefur verið hingað til.