Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:58:04 (600)

2000-10-16 18:58:04# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:58]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara þessu. Ég hygg að ef menn gætu nálgast aflaheimildirnar með því sem ég mundi kalla stýrðu uppboði eða stýrðum aðferðum, þá er ég bæði að tala um stýringu flota og að einhverju leyti stýringu varðandi byggðasjónarmið, þá mætti kannski sjá breytingu í þessu fólgna.

Hins vegar verð ég að segja að í lögum um stjórn fiskveiða er ákvæði um að fiskstofnarnir séu sameign íslensku þjóðarinnar og að nýting þeirra skuli stuðla að traustri atvinnu og byggð í landinu. Þessi sjónarmið hafa verið í lögum og síðan hefur verið fjallað um þau í Hæstarétti og þau túlkuð þannig að ákvæðin nægðu til þess að ekki þyrfti að greiða mönnum bætur fyrir breytingu á þessum ákvæðum, þ.e. að þau mynduðu ekki varanlegt hald manna á aflaheimildum.

Ég er ekki að hafna því að setja ákvæði um þjóðareign í stjórnarskrána. Það held ég að geti verið til bóta. Mér finnst bara allur pakkinn sem utan um það er byggður ansi lítils virði eins og hann er skrifaður í því sem ég hef kallað sýndarveruleika í skýrslu auðlindanefndar.