Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 19:01:55 (602)

2000-10-16 19:01:55# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[19:01]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið alveg sammála hv. þm. um að sjávarbyggðir á Íslandi röðuðust niður á þann veg sem þær gerðu fyrr á árum og jafnvel á fyrri öldum með tilliti til þess að þær lágu vel við fiskimiðum og fólk byggði afkomu sína að stórum hluta á því.

Ég er hins vegar algjörlega ósammála honum um að aðeins séu tveir kostir í stöðunni, það sé áframhaldandi kvótabrask eða frjálsar veiðar. Það eru fjölmargar aðferðir til þess að stýra fiskveiðum. Við höfum notað margar þeirra og samhliða núverandi braskkerfi, höfum við reynt að nota nokkrar sóknarstýringaraðferðir.

Ég minni á að 1992--1993 þegar við náðum ekki að veiða þorskkvótann okkar var gripið til alls konar sóknarstýrðra aðferða í núverandi kvótakerfi, svæðaskiptingar, lokunar svæða varanlega, takmörkunar eftir tegundum o.s.frv. lokunar smáfiskahólfanna fyrir Norður- og Austurlandi á stórum svæðum og gripið til ýmissa reglna eins og viðmiðunar um stærð fisks og annað slíkt. Þetta eru allt sóknarstýrð tæki og mismuna mönnum ekki að neinu leyti varðandi það að sækja sjóinn.

Nákvæmlega sama regla gildir fyrir fiskimanninn úr þorpinu og togaramanninn ef veiðislóðin er lokuð, svo framarlega sem hún er lokuð fyrir öllum veiðum. Auðvitað hefur veiðislóðinni þegar verið skipt misjafnt niður. Henni var skipt niður m.a. með 12 mílna landhelgi. Það veit ég að hv. þm. veit alveg jafn vel og ég. Innan 12 mílna landhelgi hefur strandveiðiflotinn meiri réttindi en togaraflotinn svo eitthvað sé nefnt. Slíkar útfærslur margar væru til bóta ef þær væru betur útfærðar.