Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 19:08:11 (605)

2000-10-16 19:08:11# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[19:08]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna þess sem kom fram fyrr í umræðunni um skilning eins nefndarmanna í auðlindanefnd á erindisbréfi nefndarinnar sem var samþykkt Alþingis held ég að rétt sé að rifja upp nokkur atriði til að varpa ljósi á hvað fólst í þeirri tillögu sem var lögð fram á Alþingi á sínum tíma og Alþingi gerði síðan að sinni með samþykktinni.

Skilningurinn sem kom fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni var sá að þegar hefði verið tekin afstaða til þess hvernig ætti að fara með auðlindir landsins, hverjar ættu að vera í þjóðareign og hverjar ekki. Það félli því ekki undir erindisbréf nefndarinnar að taka það til umfjöllunar og hafa á því skoðun hvort auðlindin ætti að vera í þjóðareigu og hvaða auðlindir ættu að vera í þjóðareigu.

Þetta þótti mér einkennilegt að heyra núna eftir að nefndin hefur lokið störfum að hafi verið skilningurinn sem hafi verið uppi í nefndinni allri, ef ég skildi þingmanninn rétt, sérstaklega vegna þess að 1. flm. málsins sat á sínum tíma í nefndinni.

Ég vil leyfa mér að endurtaka að tillagan, eins og hún var samin, fól í sér að nefndinni var ætlað að fara yfir hverjar auðlindirnar væru yfir höfuð, það þarf að kortleggja hverjar auðlindirnar eru sem við búum yfir á þessu landi. Það var líka verkefni nefndarinnar að setja fram tillögur um hvort þær ættu að vera í þjóðareigu eða ekki. Þetta er alveg nauðsynlegt að liggi fyrir skýrt og skilmerkilega þannig að það valdi engum misskilningi að nefndinni var ætlað að taka þetta fyrir og hafa á því skoðun.

Ég vil leyfa mér að rifja þetta upp vegna þess á ég var á sínum tíma einn af flutningsmönnum tillögunnar ásamt öllum þingflokki Alþb. sem þá var. Menn verða að skoða tillöguflutninginn í aðdraganda málsins og þau sjónarmið sem menn höfðu sett fram í mörg ár þar á undan gagnvart ýmsum auðlindum. Auðvitað var sá texti sem menn settu saman þá framhald af þeim málflutningi sem menn höfðu verið með. Á Alþingi hafði verið flutt í mörg ár frv. um að lýsa tilteknar auðlindir sem þjóðareign, þar með talið orku fallvatna og nýtingu hennar og um jarðhitaréttindi.

Ég vil rekja annað málið af því ég er með það við höndina, frv. til laga um jarðhitaréttindi, einmitt til að varpa ljósi á baksvið þeirra sjónarmiða sem birtast svo í tillögunni sem síðar varð ályktun Alþingis.

Í þessu frv. um jarðhitaréttindi er meginefnið að lýsa því yfir að jarðhitaréttindi neðar en 100 metra undir yfirborði jarðar séu þjóðareign, eða eins og segir, með leyfi forseta, í 1. gr.:

,,Landareign hverri, sem háð er einkaeignarrétti, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita á og undir yfirborði hennar í allt að 100 metra dýpi.``

Þarna var verið að lýsa þessi réttindi eign þjóðarinnar sem voru þarna fyrir neðan og takmarka einkaeignarréttindi sem fylgdu landinu. Það var aldeilis ekki að þingmenn, sem þetta fluttu ár eftir ár, hafi verið þeirrar skoðunar að það hafi verið útrætt mál hvaða auðlindir ættu að vera þjóðareign. Það var ekki bara að það væru þingmenn Alþb. sem höfðu þessa skoðun, það voru fleiri eins og ég vil nú vitna til.

Frv. þetta sem ég er hér með og var síðast flutt á 122. löggjafarþingi, um jarðhitaréttindi, var fyrst flutt árið 1983 og þá sem stjfrv., ekki sem frv. eins stjórnmálaflokks og ekki sem frv. eins þingmanns, heldur sem stjfrv. þáv. stjórnar sem samanstóð af Framsfl., Alþfl. og Alþb. Þá var forsrh. Gunnar Thoroddsen. En þetta þingmál átti aðdraganda í stjórnarmyndun 1978. Þá var sett ákvæði í samstarfsyfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar þess efnis að djúphiti í jörðu skyldi vera þjóðareign.

En það var aldeilis ekki svo að menn litu svo á að þetta væri afgreitt mál, óumbreytanlegt. Finnst mönnum líklegt að þingmenn þess flokks sem tóku þetta mál upp á sínum tíma og hafa fylgt því eftir alla tíð fari allt í einu að flytja þáltill. með allt öðrum skilningi á því hvað eigi að vera eign þjóðarinnar af auðlindum landsins? Fjarri fer.

[19:15]

Í grg. með frv. sem ég nefndi er einmitt að finna lögfræðilega reifun á því að unnt sé að setja skorður við einkaeignarréttindum á jarðhita og meðal þess sem vitnað er til er ritgerð eftir Ólaf Jóhannesson sem bar nafnið ,,Um eignar- og umráðarétt að jarðhita``. Ólafur Jóhannesson, sem var forsætisráðherra um skeið og einn virtasti lögfræðingur landsins, var þeirrar skoðunar að menn gætu sett lög um þetta efni og takmarkað einkaeignarréttindi að þessu leyti og lýst réttindin þjóðareign. Í grg. segir, með leyfi forseta:

,,Niðurstöður Ólafs Jóhannessonar voru þær að þótt réttur landeigenda til umráða og hagnýtingar jarðhita á landi sínu sé, að því er virðist, litlum skorðum bundinn að núgildandi lög um þá megi auðvitað setja honum ýmis takmörk með nýrri löggjöf ef ástæða þykir til. Enn fremur segir Ólafur að það sé sanngjörn regla og í samræmi við eðli máls að sérstök náttúru auðæfi, sem enginn einstakur hefur átt þátt í að skapa, séu sameign þjóðarinnar allrar. Með löggjöf þeirri, sem gerð var tillaga um, væri ekki gengið of nærri hagsmunum landeigenda. Þeir héldu eftir nægilegri orku til sinna eðlilegu þarfa. Lokaorð ritgerðar Ólafs um ákvæði frumvarpsins um umráðarétt ríkisins neðan 100 metra dýpis eru þessi: ,,Og slík löggjafarákvæði mundu ekki brjóta í bág við eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar. Er það augljóst þegar litið er til þeirrar löggjafar sem sett hefur verið í öðrum löndum um hliðstæð efni, enda þótt þar séu svipuð eða samhljóða ákvæði um friðhelgi eignarréttar, sbr. það sem sagt er hér að framan um Danmörk.````

Svipað má finna í ummælum eftir dr. Bjarna Benediktsson í grg. með frv. sem hann flutti á Alþingi árið 1945. Það er því aldeilis ekki þannig að menn hafi litið svo á að búið væri að afgreiða það í eitt skipti fyrir öll að réttindi undir landi væru prívateign landeigenda. Þetta eru þau viðhorf sem liggja að baki tillögu sem þingflokkur Alþfl. flutti á sínum tíma sem síðan varð að samþykkt Alþingis og leiddi til stofnunar auðlindanefndar. Þau sjónarmið sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom hér fram með um skilning á efni tillögunnar eru því algerlega út í hött, fullkomlega út í hött og bendir til þess að menn hafi litið svo á að þeir ættu að gera eitthvað annað en þeim var falið að gera.

Hverjum þjónar það, herra forseti, að nefndin taki ekki til umfjöllunar þá spurningu hvort ekki sé sanngjarnt og rétt að jarðhitaréttindi séu þjóðareign? Hverjum þjónar það? Það þjónar þeim sem nýta þau réttindi í dag sér til hagsbóta en öðrum ekki. Getur verið, herra forseti, að það sé sjónarmið hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og þingflokks Samfylkingarinnar þá líka, ef marka má ummæli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, að sumar auðlindir eigi að vera fyrir suma og aðrar auðlindir eigi að vera fyrir alla?

Herra forseti. Ég vil segja það sem mitt sjónarmið í þessu máli að ég tel það fullkomlega ósamrýmanlegt að auðlind sem heitir heitt vatn og er verðmæt auðlind, mjög verðmæt auðlind, skuli bara nýtast þeim sem á landið sem vatnið er undir en auðlind sem heitir fiskimið skuli nýtast öllum. Mér finnst þetta ósamrýmanleg afstaða, herra forseti. Ef menn eru þeirrar skoðunar að sumt af auðlindum eigi að vera fyrir suma, að það eigi bara að nýta sum réttindi til hagsbóta fyrir hluta af þjóðinni, gott og vel, þá skulum við hafa það sem afstöðu. En þá verður sú afstaða líka að gilda um aðrar auðlindir eins og fiskimiðin. Og menn verða þá að fallast á að þau byggðarlög sem nýta og nýtt hafa fiskimið um langan aldur eigi ákveðinn rétt til að nýta þau fiskimið umfram aðra. Annað er ekki sanngjarnt, herra forseti. Mér finnst að ef það er rétt sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson segir og lýsir í störfum nefndarinnar, þá hafi nefndin vikið sér undan því að svara þessari sanngirnisspurningu. Þá er málið að verulegu leyti óunnið pólitískt séð ef menn hafa ekki leitt til niðurstöðu þá umræðu, eðlilegu og sjálfsögðu pólitísku umræðu um jafnan rétt manna til auðlinda sem tilheyra íslenskri þjóð án tillits til þess hvað auðlindin heitir.

Ég get ekki sagt annað, herra forseti, en að ég er ósammála því sjónarmiði sem hv. þm. lýsir hér um hvað sé eðlilegt og sanngjarnt. Ég er ósammála því. Mér finnst að það sé ekki afstaða sem samræmi er í og það þurfi því að vinna þetta mál betur áður en takast megi að ná einhverri verulegri sátt um það til framtíðar.