Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 19:21:20 (606)

2000-10-16 19:21:20# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[19:21]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var merkileg ræða sem hér var flutt, svolítil nostalgíuræða fyrrv. alþýðubandalagsmanns sem hefur ekki enn þá fengið sig til að horfast í augu við það að nokkuð er um liðið og í rauninni allt frá landnámi hefur það sem kallað er einkaeignarréttur verið yfirgnæfandi í löggjöf sem snýr að verðmætum eins og auðlindum lands og öðru slíku. Á meðan sú tillaga sem hv. þm. var einn af flutningsmönnum að var til umfjöllunar í þinginu, þ.e. um skipan auðlindanefndarinnar, voru samþykkt lög sem tóku til stórra þátta þess máls sem hv. þm. fór yfir, m.a. um eignarhald á landi og hvernig því eignarhaldi skyldu settar skorður.

Það frv. var keyrt inn af hv. þáv. iðnrh. og viðskrh. og gert að lögum af þeirri ríkisstjórn sem þá sat og var samsett af sömu flokkum og núna. Það kom fram af hálfu 1. flm. tillögunnar um auðlindanefndina þegar verið var að afgreiða það mál, að fyrir henni liti þetta mál orðið nokkuð öðruvísi út en það hefði gert í upphafi vegna þess að á vinnslutíma tillögunnar í þinginu hefði verið gengið frá þessum málum, og það var gert með þeim hætti sem fram kemur í gildandi löggjöf um það. Ég ætla bara að undirstrika að það kom ekki til álita af hálfu auðlindanefndarinnar, auðvitað var farið yfir það, en það kom ekki til álita að taka þá löggjöf upp eins og mér virðist sem hv. þm. telji að hefði átt að gera.