Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 19:23:31 (607)

2000-10-16 19:23:31# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[19:23]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur staðfest orð mín um skilning á tillögunni, hvað fólst í henni. Hins vegar er komin fram skýring frá þingmanninum af hverju nefndin vann ekki verkið eins og til var ætlast og skýringin er sögð sú að Alþingi hafi sett lög.

Það er kosturinn við lög, herra forseti, að þeim má breyta og það gerum við dálítið oft. Alþingi hefur m.a. sett lög um stjórn fiskveiða. Engu að síður tók auðlindanefndin þau lög til umfjöllunar og komst að þeirri niðurstöðu að það bæri að breyta þeim og lagði fram tillögur í þeim efnum þannig að skýring hv. þm. á því af hverju auðlindanefndin vann ekki sitt verk eins og til var ætlast fellur um sjálfa sig. Hv. þm. verður að upplýsa þingheim og almenning um það af hverju þingmenn Samfylkingarinnar gera sér mannamun á íslenskri þjóð, af hverju þeir líta svo á að þeir sem nýta fiskimiðin þurfi að sæta því að þau séu sameign þjóðarinnar en þeir sem nýti sér heitt vatn líti á það sem sín einkaeignarréttindi og þurfi ekki að standa öðrum þjóðfélagsþegnum nein skil á hluta af þeim verðmætum. Það er það sem stendur upp úr eftir þessa umræðu, að Samfylkingin á eftir að útskýra þessa stefnu sína.