Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 19:28:10 (610)

2000-10-16 19:28:10# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[19:28]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég held að umræða af þessum toga geri það einmitt að verkum að ýmsir draga í efa að hér fari fram hin raunverulega pólitíska umræða í landinu. Ég held, virðulegi forseti, að þær hártoganir og þeir útúrsnúningar sem við höfum þurft að hlýða á á hinu háa Alþingi séu aðeins til þess fallin að draga úr virðingu þingsins. Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, aðeins reyna að draga saman þá umræðu sem hér hefur farið fram og það sem raunverulega átti sér stað. Ég skal reyna að tala hægt, virðulegi forseti, þannig að allir geti fylgst með.

Í fyrsta lagi lagði þáv. þingflokkur Alþb. fram till. til þál. um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald. Hún var með ákveðnum hætti eins og er að finna á þskj. 798, 465. mál á 122. löggjafarþingi frá árinu 1997--1998. Þar var einmitt fjallað um það sem hv. þm. nefndi í máli sínu. Í tillögunni er m.a. talað um ,,námur í jörð, orku í rennandi vatni og jarðhita neðan við 100 m dýpi.`` Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að þetta var lagt fram á sínum tíma. En síðan fékk málið meðferð í þinginu og þegar þeirri meðferð lauk var þessi tillaga samþykkt. Þá hafði ýmsu verið breytt frá hinni upprunalegu tillögu og við sem sátum í auðlindanefnd litum svo á að samþykkt Alþingis á endanum væri það umboðsbréf sem við höfðum og eftir því var unnið. Það hljómaði þannig, virðulegi forseti:

[19:30]

,,Alþingi ályktar að kjósa níu manna nefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, m.a. öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, ...``

Þetta var nákvæmlega umboðsbréf nefndarinnar, þ.e. auðlindir sem eru eða kunna að verða í þjóðareign. Annað var fellt út úr tillögunni og við hljótum að spyrja okkur þegar talað er um þjóðareign: Hvers konar eignarréttindi er átt við? Er átt við réttindi sem búið er að skipa með þeim hætti, hvort sem það er fyrir hefð, venju, löggjöf, viðskipti eða annað, að þau eru verðmæti sem eru háð einkaeignarrétti. Svo er ekki. Þannig skilgreindum við það. Við skilgreindum þetta nákvæmlega samkvæmt umboðsbréfinu sem Alþingi samþykkti, þ.e. að nefndinni er ætlað það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða í þjóðareign. Það er nákvæmlega kjarni málsins. Við fórum yfir það hvað við töldum að væri þjóðareign og síðan var vinnunni haldið áfram og skýrslan liggur fyrir.

En vegna þess sem hv. þm. fór yfir áðan held ég að líka sé þörf á útskýringum í þessu samhengi til þess að menn skilji af hverju við fórum ekki í þá hluti sem hv. þm. nefndi. Það sem skýrir það er frv. sem var lagt fram og síðan samþykkt sem lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þegar þetta frv. varð að lögum á sínum tíma sat a.m.k. þingflokkur jafnaðarmanna hjá eða greiddi atkvæði gegn því og gott ef þingflokkur Alþb. gerði það ekki líka. En minni mitt er ekki það gott að ég muni það nákvæmlega. Í 3. gr. þessara laga segir, með leyfi forseta:

,,Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.``

Þetta var rætt mjög vandlega í þinginu og þáv. hæstv. iðnrh., Finnur Ingólfsson, svaraði því aðspurður að í þessu fælist það að eigandi að jörð ætti réttindi eins langt niður og mögulegt væri að nýta. Það var svarið. Það var því klárt að þáv. ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. skipuð sömu flokkum og nú sitja í ríkisstjórn samþykkti á sínum tíma að eign á landi fylgdi réttur til auðlinda svo langt niður sem hægt væri að nýta. Þar af leiðandi eru þau réttindi og þær auðlindir sem hv. þm. talaði um og heyra til eignarlandi og einkaeignarrétti klárlega skilgreindar. Af þessu réðum við í auðlindanefndinni að þessir hlutir kæmu ekki til umfjöllunar hjá okkur af því að umboðsbréfið sem Alþingi samþykkti á sínum tíma kvað sérstaklega á um að verið væri að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða í þjóðareign. Niðurstaða nefndarinnar er mjög skýr. Meginreglan er sú að um auðlindir í þjóðareign eigi að gilda að að þeim sé jafn aðgangur og að fyrir nýtingu á þeim auðlindum skuli greitt gjald. Þetta er meginniðurstaða nefndarinnar um nýtingu auðlinda í þjóðareign.

Það er enginn misskilningur í þessu. Þess vegna er dálítið sorglegt, virðulegi forseti, að við á hinu háa Alþingi skulum eyða tíma þingsins í að hártoga hluti, fara upp nánast í tilgangsleysi til þess eins --- ég veit ekki hvort það er til þess að varpa rýrð --- ég veit ekki nákvæmlega hver tilgangurinn er með því að flytja ræðu eins og flutt var hér áðan sem hefur ekkert með veruleikann að gera. Mér finnst dálítið sorglegt að formaður þingflokks Framsfl. skuli hafa flutt þá ræðu sem hann flutti hér áðan vegna þess að hún er í engu samræmi við veruleika og sögu þessa máls.