Matvæli

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 13:43:14 (616)

2000-10-17 13:43:14# 126. lþ. 11.5 fundur 74. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv., RHák
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Ragnheiður Hákonardóttir:

Virðulegi forseti. Á síðasta ári hafa umræður um aukið eftirlit með framleiðslu, meðferð og dreifingu matvæla orðið æ háværari. Það er ekki síst vegna mjög alvarlegra sýkinga sem rekja má til neyslu matvæla og í sumum tilfellum hefur verið um endurtekningu að ræða og mjög alvarlega horft við þegar ekki hefur verið brugðist við strax.

Hæstv. umhvrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um matvæli og þar af leiðandi komið nokkuð til móts við ástandið. Umhvrn. lét kanna útbreiðslu kampýlóbakters og lagði fram tillögur til úrbóta til að draga úr hættu á sýkingum. Fyrrgreint frv. er liður í þessari aðgerð.

Virðulegi forseti. Gera má ráð fyrir því að umfang starfa eftirlitsaðila vaxi á komandi árum og eftirlit með framleiðslu, meðferð og dreifingu matvæla verði m.a. meira í höndum innra eftirlits framleiðenda og gæðaþróunar þeirra sjálfra. Því væri rétt að færa eftirlit ríkisins eða opinberra aðila í einfaldara form, t.d. með því að fella slíkt undir eitt ráðuneyti.

Aukin menntun starfsfólks og atvinnurekenda, aukin gæði í meðferð matvæla og ekki síst skyldur og aukin ábyrgð framleiðenda á meðferð, framleiðslu og dreifingu verða óneitanlega þeir þættir sem ber að leggja ríka áherslu á. Í þeim breytingum sem hér liggja fyrir er gert ráð fyrir þessu í auknum mæli. Skyldum opinberra eftirlitsaðila verður því fremur beint að því að sinna forvörnum og rannsóknum í stað þess að sinna einvörðungu eftirliti í komandi framtíð.

Þær stofnanir sem haft hafa með höndum eftirlit með matvælum eru m.a. Hollustuvernd ríkisins, heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, héraðsdýralæknar og Fiskistofa. Hver um sig sinnir veigamiklu hlutverki á þessu sviði en eru þær í stakk búnar til að sinna að fullnustu hlutverki sínu?

[13:45]

Fiskistofa rekur útibú vítt um landið, sums staðar mjög ófullbúin. Heilbrigðisnefndir og eftirlit sveitarfélaganna glíma víðast hvar við fjármagnsskort. Gert er ráð fyrir því að gjald notenda vegna þjónustu dragi dám af vegalengdum og kostnaði við ferðir, sbr. 3. gr. frv.

Virðulegi forseti. Ég beini því þeim tilmælum til hæstv. umhvrh. að kannaðir verði fjárhagslegir burðir viðkomandi eftirlitsaðila í matvælaeftirliti á að rækja skyldur sínar svo að fullnægjandi verði samkvæmt þeim lögum og reglugerðum sem þeim ber og þeim tryggt nægt fjármagn til þess.