Matvæli

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 13:47:32 (617)

2000-10-17 13:47:32# 126. lþ. 11.5 fundur 74. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem orðið hefur um þetta litla en þó ágæta mál. Þetta er ekki umfangsmikið frv. eins og menn sjá.

Það er rétt sem dregið hefur verið fram af hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að þetta er skref í rétta átt og þetta er að mínu mati mjög stórt skref. Einnig er rétt sem hér kom fram að víða hefur pottur verið brotinn í matvælaeftirlitsmálum.

Hér var sérstaklega tekið fram af hv. 1. þm. Vestf., Ragnheiði Hákonardóttur, að einfalda þyrfti eftirlit með matvælum og fella undir eitt ráðuneyti. Ég tek undir þau orð og lýsi því við þessa umræðu að sú er hér stendur flutti um það tillögu í ríkisstjórninni að reyna að einfalda matvælaeftirlitið. Nefnd forsrh. um opinbert eftirlit fékk það mál til umfjöllunar og hefur verið að skoða það. Ég tel mjög æskilegt að matvælaeftirlitið verði einfaldað og fellt undir ekki þrjú ráðuneyti eins og það er í dag heldur tvö eða eitt þannig að það verði einfaldað frá því sem nú er.

Við höfum reynt að skoða þessi mál í umhvrn. á jákvæðan hátt og ég tel að það verði að nálgast þau mál þannig að menn verða að hugsa aðallega um neytendur þegar þeir eru að reyna að færa á milli eftirlit og einfalda það en hugsa ekki einungis um stöðu sinna ráðuneyta og hvar málaflokkurinn tilheyrir í dag. Við höfum því reynt að vera ekkert að tala um hvar matvælaeftirlitið eigi nákvæmlega að lenda heldur tala fyrir því að það verði að einfalda það.

Hv. þm. Ragnheiður Hákonardóttir kom líka inn á hlutverk heilbrigðisnefndanna og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga og dró það fram að ef til vill væru þær ekki í stakk búnar til að sinna eftirlitinu í héraði og kanna þyrfti fjárhagslega burði slíkra eftirlitsaðila svo að þeir gætu staðið undir því. Nú er það þannig að heilbrigðiseftirlit í sveitarfélögunum er á þeirra ábyrgð og þeirra könnu og þeir bera kostnað af því en þeir hafa heimildir og hafa nýtt sér þær til að setja gjaldskrá til að innheimta eftirlitskostnaðinn og í 4. gr. þessa frv. er einmitt hnykkt á því að undirbyggja verði enn frekar og samræma í lagatexta þessar heimildir til að innheimta eftirlitsgjöld þannig að menn hafi öll þau tæki sem þeir þurfa til að innheimta gjöld fyrir það matvælaeftirlit sem þeir sinna.

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessar jákvæðu umræður sem hér hafa orðið um þetta mál og vænti þess að það verði skoðað frekar í hv. umhvn.