Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:04:41 (621)

2000-10-17 14:04:41# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta atriði með stjórnir er bara stjórnsýslulega gerður greinarmunur á A-hluta og B-hluta stofnunum og þetta er A-hluta stofnun sem heyrir beint undir ráðherra og sá sem er þar í forstöðu er embættismaður og hefur ráðherra sem næsta yfirmann sinn. Því er útilokað að skipa fyrir fram stjórnir sem fara með ekkert vald.

Hitt er svo annað mál hvort skipuð er einhver ráðgefandi nefnd honum til aðstoðar við stofnunina og hvernig innra starf stofnunarinnar er síðan skilgreint. Þetta er aðeins þessi stjórnsýslulega staða þannig að mjög mikilvægt er að varðandi ábyrgðina séu hreinar línur. Sjálfsagt er hægt að skipa ráðgefandi nefndir sem hafa þá ekki annað hlutverk en að veita ráð en bera ekki stjórnskipulega ábyrgð.