Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:08:44 (625)

2000-10-17 14:08:44# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem talsmaður Samfylkingarinnar í þessu máli, Jóhann Ársælsson hefur rætt, en þó vil ég varpa fram spurningu til hæstv. ráðherra. Ég vil fyrst koma að því að það sem mér finnst áhugavert í þessu frv. er að verið er að leggja nokkuð mikla áherslu á aukna upplýsingagjöf þessarar stofnunar. Það sem þarna er tekið fram í umfjöllun um 3. gr. er að í raun og veru er verið að leggja mikla áherslu á vinnu sem mér sýnist að hafi ekki verið lögð nægileg rækt við fram að þessu og er þá ágætt, bæði þetta með að vinna að kortlagningu og t.d. að miðla upplýsingum um kortlagningu örnefna og líka að miðla upplýsingum um skráningu og fleira af því sem þarna er tekið upp. Ég bind a.m.k. vonir við að þetta sé þá áhugavert nýmæli sem við erum þá að setja í lög.

Ég kvaddi mér hljóðs til að koma með fyrirspurn til ráðherrans varðandi tekjur þessarar stofnunar. Í 6. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Landmælingar Íslands afla sér tekna á eftirfarandi hátt:

1. Með sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar ríkisins.

2. Með sölu á sérhæfðri þjónustu á sviði landupplýsinga, loftmynda og fjarkönnunar, landmælinga og kortagerðar sem viðskiptavinir stofnunarinnar óska sérstaklega eftir.

3. Með þjónustugjöldum vegna afgreiðslu gagna, ...`` Og þar er kannski skýrasta dæmið um kostnað.

Í greinargerðinni er talað um að fjármögnunarleiðir stofnunarinnar verði gerðar skýrari og vísað til þessara efna. Þá langar mig að spyrja hvort gert sé ráð fyrir auknum tekjum hjá þessari stofnun og jafnframt af því að það er nefnt í umsögn um 6. gr. að stofnun setji sér gjaldskrá um efni og þjónustu þar sem hún er í samkeppnisrekstri og að ráðherra eigi ekki að staðfesta hana enda þykir það ekki viðeigandi þar sem um sé að ræða samkeppnisþjónustu og það mundi þykja samkeppnishamlandi ef ráðherra væri að hafa afskipti af gjaldskránni. Þá vaknar sú spurning hvort útgjöld hafi lent á ráðuneyti áður sem flokkast undir efni og þjónustu í samkeppnisrekstri. Hefur þetta fyrirtæki verið að greiða niður einhverja þá þjónustu sem skoðast í samkeppnisrekstri?

Ef svo er, er það í einhverjum mæli? Er gert ráð fyrir auknum tekjum í einhverjum mæli? Þessi 6. gr. sem kveður á um hvernig Landmælingar afli sér tekna fyrir utan framlög á fjárlögum, er eitthvað vitað hvernig sú skipting verður? Að hvaða leyti mun stofnunin afla sér tekna og að hve miklu leyti verður hún á fjárlögum?