Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:26:24 (629)

2000-10-17 14:26:24# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Stjórnun sem á að vera ráðgefandi er ekki stjórnun, það er ekki stjórn. Fyrirbærið á ekki að heita stjórn því að í orðinu stjórn felst að viðkomandi fyrirbæri, hópur manna, eigi að stjórna. Þá köllum við þetta bara ráðgjafardeild eða eitthvað því um líkt en ekki stjórn.

Varðandi það að þetta sé skoðun mín, þá ég er aldeilis frægur. Þetta er bara ekki skoðun mín, þetta er viðtekin venja í stjórnun um allan heim og ekkert mín skoðun sérstaklega. Ég hef ekki fundið þetta upp. Það að hafa stjórnir yfir fyrirtækjum og að stjórnir ráði og reki forstjóra er ekki mín uppfinning. Ég fann ekki upp hlutafélagalögin um allan heim. Ég þakka hv. þm. reyndar fyrir traustið en það er ekki þannig. Það þykir bara eðlilegt að skipuritið sé skýrt, að ábyrgð, stjórnun og hverjir eigi að ráða sé alveg á hreinu og að ekki sé einhver vafi á því hver ráði og hver beri ábyrgð.

Það er einmitt þetta sem hefur verið galli við stjórnir sem skipaðar eru af Alþingi eða kosnar af Alþingi að ekki er á hreinu hver á að ráða. Alþingi er ekki framkvæmdarvald. Alþingi á ekki að skipa stjórnir sem eru í framkvæmdum. Alþingi er löggjafarvald og Alþingi hefur eftirlitshlutverk. Það á að geta spurt ráðherrann hvernig viðkomandi fyrirtæki gangi en ekki spyrja fulltrúa sína í stjórn hvernig reksturinn hjá þeim gangi því þá ber ráðherrann enga ábyrgð. Þá er það stjórnin sem Alþingi kaus sem ber ábyrgð, þ.e. Alþingi sjálft og það gengur ekki upp. Þannig að ef við viljum hafa ábyrgð ráðherrans skýra verðum við að láta hann skipa stjórnina og stjórnina ráða og reka forstjóra, þá er ábyrgð og hlutverk hvers manns alveg skýr.