Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:32:22 (632)

2000-10-17 14:32:22# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það mátti ætla af þessari ræðu að frv. til laga um Landmælingar og kortagerð markaði upphaf fyrsta dags í starfsemi nýrrar stofnunar, eins og Landmælingar Íslands hafi ekki verið til áður, að nú væri hér brotið í blað og í fyrsta skipti skilgreind verkefni stofnunarinnar og tekjustofnar, nú væri í fyrsta skipti gerð grein fyrir því hvað forstjórinn ætti að gera o.s.frv. Auðvitað er það fjarri öllu lagi. Þessi stofnun hefur starfað um nokkurt árabil og ég veit ekki betur en að henni hafi gengið svona bærilega a.m.k. að halda úti þeim lögbundnu verkefnum sem núgildandi lög kveða á um þannig að ég skil ekki þennan ræðuflutning.

Ég er hins vegar að gera það umtalsefni að verið er að gera kerfisbreytingar á þessari stofnun og taka af lífi eitt stykki stjórn, sem að minni hyggju þarf að gaumgæfa. Þó að um litla stofnun sé að ræða og litla stjórn þá er þetta eitt skrefið af mörgum sem þegar hafa verið tekin og fleiri á eftir að taka vafalaust í þá veruna að beintengja ráðuneytið og viðkomandi stofnanir. Ég hef efasemdir um það, miklar efasemdir um það.

Ég segi: Hvað næst? Og vek á því athygli að ég er hræddur um að einhverjum mundi nú bregða í brún þegar og ef heilbrrh. til að mynda eða á vettvangi velferðarkerfisins skulum við segja, menn gengju með sama hætti fram og tækju af ráðgefandi stjórnir, valdameiri stjórnir og ráð sem hafa haft það með höndum að tryggja gang velferðarkerfisins með sinni sérfræðiþekkingu og öðru.

Hér á það nákvæmlega sama við. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fleiri fái að koma að ráðgjöf og stjórn svona stofnana en ráðherra einn og hans embættismaður og síðan forstjórinn. Ég held að stofnunin hafi gott af því og ég hef ekki orðið var við nein sérstök vandamál á ferðinni vegna þessarar stjórnar. Eða er það svo?