Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 14:59:24 (639)

2000-10-17 14:59:24# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[14:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um stöðu þessarar stofnunar. Ég þakka fyrir svör hæstv. ráðherra um að þar séu mál í góðum gangi og byrjunarörðugleikar að baki. Það er fagnaðarefni.

Umræðunni um stjórnskipun í stofnunum ríkisins ljúkum við ekki í þessu samhengi. Til að taka af öll tvímæli vil ég hins vegar rifja upp að í umræðum um Brunamálastofnun ríkisins, af því að hæstv. ráðherra vék að þeirri stofnun og umræðum sem áttu sér stað fyrir réttu ári eða svo, a.m.k. á síðasta þingi, þá lýsti ég miklum efasemdum um þær breytingar í umræðum um það mál, gott ef það var ekki við 1. umr. Ég þekki nefnilega þá stofnun býsna vel, var stjórnarformaður í henni á árum áður og veit vel hvernig gangur mála var þar á bæ.

[15:00]

Það er alveg hárrétt að auðvitað er það ósköp skiljanlegt að ráðherra, hvaða nafni sem hann nefnist, þyki þægilegra og einfaldara að þurfa ekki að fara með sín mál í gegnum einhverja stjórn, að þurfa ekkert að hafa fyrir því að láta einhverja stjórn segja sér eitt eða annað, að hafi bara bein völd og geta stjórnað stofnuninni nánast þrábeint í gegnum viðkomandi forstjóra hverju sinni, þ.e. ef ráðherrann er þannig gerður. Ég er þessu andvígur. Auðvitað er það léttara í hendi og auðveldara með allan gang að gera þetta svona. Ég ber hins vegar það mikla virðingu fyrir lýðræði í þessu landi að ég tel mjög mikilvægt að fleiri raddir fái að hljóma, að það sé bara mjög mikilvægt fyrir lífsanda viðkomandi stofnunar, hvort heldur hún er til þess að stjórna í umboði þings eða ráðherra eða hvort hún er ráðgefandi. Og þó að það kunni að flækja málið í einhverjum tilfellum þá bara er það þannig. Þannig er nú lýðræðið saman sett í okkar landi. Þess vegna höfum við þessa stjórnskipun sem heitir lýðræði og þingræði. Ég vil halda mig fast við það. Það er mergur þessa máls.

Ég vil líka nefna það að lyktum varðandi þessa tilteknu stofnun, þó að lýðræðið falli nú ekki á hné út af henni, að þar meðal stjórnarmanna er bæjarstjórinn á Akranesi. Ég er fullviss um að hann hefur gert þessari stofnun mikið gagn sem einn stjórnarmanna.