Norðurlandasamningar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 15:11:15 (645)

2000-10-17 15:11:15# 126. lþ. 11.8 fundur 81. mál: #A Norðurlandasamningar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði# (framfærsluskylda með maka, barni eða móður barns o.fl.) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á Norðurlandasamningum um alþjóðleg einkamálaréttar\-ákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð og um innheimtu meðlaga.

Með frv. þessu er lagt til að heimilt verði að fullgilda tvo Norðurlandasamninga á sviði sifjaréttar sem undirritaðir voru í Ósló 25. febrúar 2000. Annars vegar er um að ræða samkomulag um breytingar á samningi frá 6. febr. 1931 um alþjóðleg einkamálaréttarfarsákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð og hins vegar samkomulag um breytingar á samningi frá 23. mars 1962 um innheimtu meðlaga. Með frv. er einnig lagt til að samningar þessir öðlist lagagildi, en stofnsamningarnir sem verið er að breyta hafa lagagildi hér á landi eins og annars staðar á Norðurlöndum.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. samningsins um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð getur yfirvald meðal annars tekið ákvarðanir um framfærsluskyldu með barni og maka í sambandi við kröfu um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað. Í 2. mgr. 8. gr. samningsins er síðan mælt fyrir um meðferð mála þegar ágreiningur rís eftir að skilnaður að borði eða sæng eða lögskilnaður hefur verið veittur. Slíkt mál skal úrskurðað í því ríki er það hjónanna sem kröfunni er beint gegn á heimilisfesti í. Þetta á einnig við þótt ákvörðun hafi upphaflega verið tekin í einhverju hinna ríkjanna. Ákvæði 2. mgr. 8. gr. samningsins hafa þótt þung í vöfum fyrir þá sem gera kröfu um framfærslueyri eða hækkun hans. Auk þess gildir ákvæðið einungis að því er varðar meðlag með barni þegar foreldrar þess hafa verið í hjúskap og því gilda ekki sömu reglur um börn foreldra utan hjónabands. Af þessum ástæðum eru ákvæði 8. gr. samningsins sem lúta að málum um framfærsluskyldu felld úr gildi með samkomulagi ríkjanna.

Af því leiðir að lögsaga í þessum málum mun ráðast af samningum um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum frá 16. sept. 1988, svokölluðum Lugano-samningi. Þetta felur í sér að unnt verður að úrskurða í því ríki þar sem maki eða barn býr eða dvelur að staðaldri. Þetta mun einfalda málsmeðferðina auk þess sem breytingin felur í sér að sömu lögsögureglur munu gilda án tillits til þess hvort börn fæðist í eða utan hjónabands.

Af þeirri breytingu á 8. gr. samningsins um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð sem hér hefur verið rakin, leiðir að 22. gr. samningsins um viðurkenningu á úrskurðum milli ríkjanna gildir ekki um ákvarðanir um framfærsluskyldu. Af þeim sökum var gerð breyting á samningnum um innheimtu meðlaga sem felur í sér gagnkvæma viðurkenningu milli Norðurlandanna á ákvörðunum um framfærsluskyldu með maka, barni eða móður barns og skyldu til fullnustu á slíkum ákvörðunum.

Herra forseti. Ég hef í aðalatriðum rakið efnisatriði frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.