Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 15:53:34 (651)

2000-10-17 15:53:34# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get nú ekki orða bundist. Lýsingar á dómhúsum landsins, kuldalegt umhverfi, skikkjuklæddir dómarar, palesandergólf o.s.frv. eru alveg ótrúlegar lýsingar sem hafa komið fram í umræðunni. En þeir hv. þingmenn sem hafa farið að skoða þessa aðstöðu í Héraðsdómi Reykjavíkur vita betur. Þeir vita að þar er búið að koma upp mjög góðri aðstöðu, með mjög hlýlegu umhverfi, þar sem sérfræðingar í barnaverndarmálum voru fengnir sérstaklega til þess að veita ráðgjöf um hvernig best væri að koma slíkri aðstöðu fyrir. Ég beini því til þeirra sem hafa ekki haft tækifæri til að skoða þessa aðstöðu að gera það endilega.

Þar að auki finnst mér sú umræða svolítið sérstök að það sé einhver á móti því að yngstu börnin fari til Barnahússins, ekki hef ég sagt neitt um það, ég held einmitt að mjög margir séu á þeirri skoðun að það sé ákaflega heppilegt. Það kemur einmitt fram í verklagsreglum dómstólaráðs. Þar er meira að segja aldursmarkið miðað við 14 ára, hv. þm., og jafnvel eldri börn. Hins vegar er það þannig að dómsvaldið er sjálfstætt í þessu landi.