Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 15:54:56 (652)

2000-10-17 15:54:56# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við ræðum einhver þau vandmeðförnustu mál sem um getur í meðferð lögreglu á Íslandi, þ.e. kynferðisafbrotamál. Það eru líklega fá ef nokkur jafnvandmeðfarin, þannig að menn verða að ganga gætilega um þær dyr.

En það sem fékk mig til þess að biðja um andsvar við ræðu hæstv. dómsmrh. er að ríkissaksóknari, yfirmaður lögreglumála, sem fer með og stjórnar jafnan rannsóknum í slíkum málum, og eins dómarafélagið, hafa lagst gegn því fyrirkomulagi sem nú ríkir. Og ég skil hæstv. dómsmrh. vel þar sem hún segir að það sé mjög óæskilegt að börn komi tvisvar eða oftar í skýrslutöku út af svona málum vegna þess að þau eru gríðarlega viðkvæm. Við megum heldur ekki gleyma því, ef við nálgumst þetta líka frá öðru sjónarhorni, að lögreglurannsókn er fyrst og fremst ætlað að upplýsa um það sem gerðist. Við vitum að dómarar eru ekki sérhæfir í að rannsaka mál. Þeir hafa ekki fengið sérþjálfun í því og það er því dálítið sérstætt þegar bæði yfirmaður ákæruvalds og lögreglumála á Íslandi og eins þeir sem eiga síðan að koma að og hafa umsjón með yfirheyrslum, dómarar, skuli leggjast gegn þessu fyrirkomulagi, en þrátt fyrir það skuli dómsmrh. koma hér og telja sig vita mun betur.

Ég ætla ekki að setja mig í dómarasæti í þessu máli. Ég stjórnaði hins vegar oft og tíðum rannsóknum í slíkum málum fyrir nokkrum árum og ég segi það alveg eins og er, að það er mjög erfitt fyrir utanaðkomandi aðila, eins og í þessu tilviki dómara, að koma inn í miðja rannsókn og stjórna skýrslutöku þegar lögreglumenn hafa kannski unnið alla aðra vinnu. Ég tek því undir viðhorf ríkissaksóknara og dómarafélagsins um að það fyrirkomulag sem var á þessum málum sé mun betra en það sem nú er og tek því undir það frv. sem hér liggur fyrir.