Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:38:02 (665)

2000-10-17 16:38:02# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:38]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nokkuð erfitt mál. Hver skilur hvað í þessu máli? Hæstv. dómsmrh. skilur ekki hvað er um að ræða, segir hv. þm. en lýsti því jafnframt yfir í ræðu sinni að hún skildi það ekki heldur. Það er gott að vita til þess að frv. mun fara til allshn. þar sem ég er viss um að skilningsríkir hv. þm. geta fjallað um það.

Það sem mér finnst erfitt að skilja í máli hv. þm. er hvers vegna hún heldur því fram að ekki verði grundvöllur fyrir rekstri Barnahússins ef þetta frv. verður ekki að lögum. Það er rétt að undirstrika að í Barnahúsi fer fram mjög mikilvægt barnaverndarstarf. Eins og margoft áður hefur komið fram í umræðunni, m.a. hjá 1. flm., eru mjög margar skýrslur teknar þar af börnum en aðeins hluti af þeim málum fer fyrir dómstóla. (Gripið fram í: Þetta er örugglega misskilningur.) Þar að auki finnst mér rétt að ítreka að það er engin togstreita í þessu máli þó að sumir hv. þm. vilji halda því fram.

Því var líka haldið fram áðan að hv. þm. hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera er þeir samþykktu lög um breytingu á meðferð opinberra mála. Ég var einmitt formaður allshn. á þeim tíma og held því fram að hv. þm. hafi verið það mjög vel ljóst að þarna væri um að ræða ákaflega mikilvæga réttarbót fyrir börn.

Að lokum, herra forseti. Hvers vegna ríkir þetta vantraust í garð dómara?